Ferill 915. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1360  —  915. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum á fjármálamarkaði (lagfæringar).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, nr. 55/1992.

1. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „10. gr.“ í 2. málsl. 2. gr. laganna kemur: 11. gr.

II. KAFLI

Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II, IV, VI, VII, IX, XIII, XIV og XVIII–XX í lögunum falla brott.

III. KAFLI

Breyting á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

3. gr.

    4. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999.

4. gr.

    Orðið „heildsöluinnlán“ í 2. málsl. 4. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

V. KAFLI

Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. b laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Í lögum þessum merkir:
                  1.      Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
                  2.      Aðili á fjármálamarkaði: Eftirtaldir aðilar teljast aðilar á fjármálamarkaði:
                      a.      fjármálafyrirtæki,
                      b.      fjármálastofnun,
                      c.      félag í viðbótarstarfsemi sem er hluti af samstæðustöðu fjármálafyrirtækis,
                      d.      vátryggingafélag,
                      e.      vátryggingafélag utan Evrópska efnahagssvæðisins,
                      f.      endurtryggingafélag,
                      g.      endurtryggingafélag utan Evrópska efnahagssvæðisins,
                      h.      eignarhaldsfélag á vátryggingasviði samkvæmt lögum um vátryggingasamstæður,
                      i.      fyrirtæki sem er undanskilið gildissviði tilskipunar 2009/138/EB skv. 4. gr. þeirrar tilskipunar,
                      j.      fyrirtæki utan Evrópska efnahagssvæðisins með meginstarfsemi sambærilega við starfsemi skv. a–i-lið.
                  3.      Áhættulag: Samningsbundinn hluti útlánaáhættu tengdur áhættuskuldbindingu eða safni áhættuskuldbindinga þar sem staða í einu lagi leiðir af sér útlánaáhættu sem er meiri eða minni en staða í öðrum lögum safnsins sömu fjárhæðar, án þess að tekið sé tillit til útlánavarna sem þriðju aðilar veita beint til þeirra sem eiga stöður í laginu eða í öðrum lögum.
                  4.      Blandað eignarhaldsfélag: Móðurfélag, sem ekki er eignarhaldsfélag á fjármálasviði, fjármálafyrirtæki eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, sem hefur að minnsta kosti eitt dótturfélag sem er fjármálafyrirtæki.
                  5.      Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi: Móðurfélag sem ásamt dótturfélögum sínum og öðrum aðilum myndar fjármálasamsteypu, enda sé móðurfélagið ekki lánastofnun, vátryggingafélag, endurtryggingafélag, verðbréfafyrirtæki, eignastýringarfélag eða rekstraraðili sérhæfðs sjóðs og a.m.k. eitt dótturfélaganna er lánastofnun, vátryggingafélag, endurtryggingafélag, verðbréfafyrirtæki, eignastýringarfélag eða rekstraraðili sérhæfðs sjóðs með skráða skrifstofu á Evrópska efnahagssvæðinu.
                  6.      Blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu: Blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi í aðildarríki sem er hvorki dótturfélag fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í aðildarríki né annars eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem komið er á fót í aðildarríki.
                  7.      Blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi í aðildarríki: Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi sem er hvorki dótturfélag fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í sama aðildarríki né eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem komið er á fót í sama aðildarríki.
                  8.      Dótturfélag: Fyrirtæki sem hafa þau tengsl við fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem lýst er í 44. tölul. teljast vera dótturfélög. Fyrirtæki sem er dótturfélag dótturfélags telst einnig vera dótturfélag móðurfélags.
                  9.      Eftirlitsaðili á samstæðugrunni: Lögbært yfirvald sem ber ábyrgð á framkvæmd eftirlits á samstæðugrunni.
                  10.      Eiginfjárgrunnur: Samtala eiginfjárþáttar 1 og eiginfjárþáttar 2.
                  11.      Eignarhaldsfélag á fjármálasviði: Fjármálastofnun, sem er ekki blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, hvers dótturfélög eru eingöngu eða aðallega fjármálafyrirtæki eða fjármálastofnanir. Dótturfélög fjármálastofnunar teljast aðallega vera fjármálafyrirtæki eða fjármálastofnanir ef a.m.k. eitt þeirra er fjármálafyrirtæki og ef meira en 50% af eigin fé fjármálastofnunarinnar, samstæðueigna, tekna, starfsfólks eða annars þáttar sem Fjármálaeftirlitið telur eiga við tengjast dótturfélögum sem eru fjármálafyrirtæki eða fjármálastofnanir.
                  12.      Eignastýringarfélag: Rekstrarfélag verðbréfasjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði eða rekstraraðili sérhæfðra sjóða samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og aðili sem stundar hliðstæða starfsemi í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem laga- og eftirlitskröfur eru a.m.k. jafngildar þeim sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.
                  13.      Eining um sérverkefni á sviði verðbréfunar: Eignaumsýslufélag eða annar aðili, annar en fjármálafyrirtæki, sem er skipulagður til að stunda verðbréfun eða verðbréfanir, þar sem starfsemin miðar eingöngu að því að ná því markmiði, skipulaginu er ætlað að aðskilja skyldur einingarinnar um sérverkefni á sviði verðbréfunar frá skyldum fyrirtækisins sem er upphafsaðili og rétthafar eiga rétt á því að veðsetja eða selja rétt sinn án takmarkana.
                  14.      Endurhverf verðbréfakaup: Samningur sem felur í sér að fjármálafyrirtæki eða mótaðili þess framselur verðbréf eða hrávörur eða tryggð réttindi sem tengjast eignarrétti á verðbréfum eða hrávörum ef tryggingin er gefin út af viðurkenndri kauphöll sem á réttinn á verðbréfunum eða hrávörunum og samningurinn heimilar ekki fjármálafyrirtæki að framselja eða veðsetja tiltekið verðbréf eða hrávöru til fleiri en eins mótaðila í senn og er háður skuldbindingu um endurkaup á þeim, eða staðkvæmum verðbréfum eða hrávörum sama eðlis, á tilgreindu verði á síðari degi sem framseljandi tilgreinir eða skal tilgreina.
                  15.      Endurtryggingafélag: Endurtryggingafélag samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
                  16.      Endurtryggingafélag utan Evrópska efnahagssvæðisins: Félag sem þyrfti starfsleyfi sem endurtryggingafélag ef aðalskrifstofa þess væri á Evrópska efnahagssvæðinu.
                  17.      Félag í viðbótarstarfsemi: Félag sem hefur að meginstarfsemi að eiga eða hafa umsjón með fasteignum eða sjá um gagnavinnsluþjónustu eða svipaða þjónustu sem er til viðbótar við meginstarfsemi eins eða fleiri fjármálafyrirtækja.
                  18.      Fjármálafyrirtæki: Lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki.
                  19.      Fjármálagerningur: Eitthvað af eftirfarandi:
                      a.      samningur sem leiðir til bæði fjáreignar eins aðila og fjárskuldbindingar eða eiginfjárgernings annars aðila,
                      b.      fjármálagerningur samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga,
                      c.      afleiddur fjármálagerningur,
                      d.      grunnfjármálagerningur,
                      e.      reiðufjárgerningur.
                  Gerningarnir sem um getur í a-, b- og c-lið teljast eingöngu fjármálagerningar ef virði þeirra leiðir af verði undirliggjandi fjármálagernings eða annars undirliggjandi þáttar, hlutfalli eða vísitölu.
                  20.      Fjármálasamsteypa: Fjármálasamsteypa samkvæmt lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.
                  21.      Fjármálastofnun: Fyrirtæki, annað en fjármálafyrirtæki eða hreint iðnaðareignarhaldsfélag, sem hefur að meginstarfsemi að afla eignarhluta eða sinna einni eða fleiri tegundum starfsemi sem um getur í 2.–12. og 15. tölul. 1. mgr. 20. gr., þ.m.t. eignarhaldsfélög á fjármálasviði, blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi, greiðslustofnanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu og eignastýringarfélög, en að undanskildum eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði og blönduðum eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði samkvæmt lögum um vátryggingasamstæður.
                  22.      Framkvæmdastjóri: Einstaklingur sem stjórn fjármálafyrirtækis ræður til þess að standa fyrir rekstri þess í samræmi við ákvæði laga um hlutafélög eða laga þessara, burt séð frá starfsheiti að öðru leyti.
                  23.      Gistiríki: Ríki þar sem fjármálafyrirtæki hefur útibú eða veitir þjónustu.
                  24.      Greiðslujöfnunarsamningur: Samningur sem felur í sér að unnt er að umreikna samrættar kröfur eða skuldbindingar fjármálafyrirtækis og viðsemjanda þess í eina jafnaða kröfu, þ.m.t. samningur um greiðslujöfnun til uppgjörs.
                  25.      Hagnaður: Hagnaður samkvæmt viðeigandi reikningsskilaumgjörð.
                  26.      Heimaríki: Ríki þar sem fjármálafyrirtæki hefur fengið starfsleyfi.
                  27.      Hlutdeildarfélag: Félag sem fjármálafyrirtæki hefur veruleg áhrif á eða þar sem beinn eða óbeinn eignarhluti nemur 20% eða meira af atkvæðisrétti eða hlutafé.
                  28.      Hætta á of mikilli vogun: Áhætta sem stafar af næmi fjármálafyrirtækis vegna skuldsetningar eða óvissrar skuldsetningar sem kann að útheimta ófyrirhugaðar ráðstafanir til úrbóta á viðskiptaáætlun þess, þ.m.t. bráða sölu eigna sem kann að leiða til taps eða endurmats á virði eigna sem eftir eru.
                  29.      Innri aðferð: Innramatsaðferðin skv. 1. mgr. 143. gr., eiginlíkansaðferðin skv. 221. gr., eigin matsaðferðin skv. 225. gr., þróuðu mæliaðferðirnar skv. 2. mgr. 312. gr., eiginlíkansaðferðin skv. 283. og 363. gr. og innri virðingaraðferðin skv. 3. mgr. 259. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
                  30.      Íbúðarhúsnæði: Húsnæði sem eigandi eða leigutaki húsnæðisins býr í.
                  31.      Kaupauki: Starfskjör starfsmanns fjármálafyrirtækis sem að jafnaði eru skilgreind með tilliti til árangurs og eru ekki þáttur í föstum starfskjörum starfsmanns þar sem endanleg fjárhæð eða umfang þeirra liggur ekki fyrir með nákvæmum hætti fyrir fram.
                  32.      Kerfisáhætta: Hætta á truflun á fjármálakerfinu sem gæti haft verulegar neikvæðar afleiðingar fyrir fjármálakerfið og raunhagkerfið.
                  33.      Kerfislega mikilvægt fjármálafyrirtæki: Móðurstofnun á Evrópska efnahagssvæðinu, móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu, blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu eða fjármálafyrirtæki sem myndi valda kerfisáhættu ef það lenti í greiðsluþroti eða starfaði óeðlilega.
                  34.      Lánafyrirtæki: Lánastofnun sem er óheimilt að taka á móti innlánum.
                  35.      Lánastofnun: Fyrirtæki sem starfar við að taka á móti innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi og veita lán fyrir eigin reikning.
                  36.      Lánshæfismatsfyrirtæki: Lánshæfismatsfyrirtæki sem er skráð eða vottað í samræmi við reglugerð (EB) nr. 1060/2009 eða seðlabanki sem gefur út lánshæfismat sem fellur ekki undir reglugerð (EB) nr. 1060/2009, sbr. lög um lánshæfismatsfyrirtæki, nr. 50/2017.
                  37.      Lykilstarfsmaður: Starfsmaður fjármálafyrirtækis, annar en framkvæmdastjóri, sem stöðu sinnar vegna getur haft veruleg áhrif á stefnu fyrirtækisins.
                  38.      Lögbært yfirvald: Opinbert yfirvald eða aðili sem er opinberlega viðurkenndur samkvæmt landslögum og hefur sem liður í eftirlitskerfi viðkomandi aðildarríkis valdbærni að lögum til að hafa eftirlit með fjármálafyrirtækjum.
                  39.      Markaðsáhætta: Hætta á tapi sem stafar af hreyfingum á markaðsverði, þ.m.t. gjaldmiðlagengi eða hrávöruverði.
                  40.      Miðlægur mótaðili: Lögaðili sem gengur á milli mótaðila að samningum sem viðskipti eru með á einum eða fleiri fjármálamörkuðum og verður þar með kaupandi gagnvart hverjum seljanda og seljandi gagnvart hverjum kaupanda.
                  41.      Mildun útlánaáhættu: Aðferð sem fjármálafyrirtæki notar til að draga úr útlánaáhættu vegna einnar eða fleiri áhættuskuldbindinga í bókum sínum.
                  42.      Móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu: Móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði í aðildarríki sem er hvorki dótturfélag fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í aðildarríki né eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem komið er á fót í aðildarríki.
                  43.      Móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði í aðildarríki: Eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem er hvorki dótturfélag fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í sama aðildarríki né eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem komið er á fót í sama aðildarríki.
                  44.      Móðurfélag: Fyrirtæki telst vera móðurfélag þegar það:
                      a.      ræður yfir meiri hluta atkvæða í öðru fyrirtæki,
                      b.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að tilnefna eða víkja frá meiri hluta stjórnarmanna eða stjórnenda,
                      c.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að hafa ráðandi áhrif á starfsemi þess á grundvelli samþykkta fyrirtækisins eða samnings við það,
                      d.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og ræður, á grundvelli samnings við aðra hluthafa eða eignaraðila, meiri hluta atkvæða í fyrirtækinu eða
                      e.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur ráðandi stöðu í því.
                  Við mat á atkvæðisrétti og réttindum til að tilnefna eða víkja frá stjórnarmönnum eða stjórnendum skal leggja saman réttindi sem móðurfélag og dótturfélag ráða yfir. Við mat á atkvæðisrétti í dótturfélagi skal ekki talinn með atkvæðisréttur sem fylgir eigin hlutum dótturfélagsins eða dótturfélögum þess.
                  45.      Móðurfélag í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu: Móðurfélag sem er móðurfélag á Evrópska efnahagssvæðinu, móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu eða blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu.
                  46.      Móðurlánastofnun á Evrópska efnahagssvæðinu: Móðurstofnun á Evrópska efnahagssvæðinu sem er lánastofnun.
                  47.      Móðurlánastofnun í aðildarríki: Móðurstofnun í aðildarríki sem er lánastofnun.
                  48.      Móðurstofnun í aðildarríki: Fjármálafyrirtæki í aðildarríki sem hefur fjármálafyrirtæki, fjármálastofnun eða félag í viðbótarstarfsemi að dóttur- eða hlutdeildarfélagi og sem ekki er sjálft dótturfélag annars fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í sama aðildarríki, eða eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem komið er á fót í sama aðildarríki.
                  49.      Móðurstofnun á Evrópska efnahagssvæðinu: Móðurstofnun í aðildarríki sem er hvorki dótturfélag annars fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í aðildarríki né eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem komið er á fót í aðildarríki.
                  50.      Móðurverðbréfafyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu: Móðurstofnun á Evrópska efnahagssvæðinu sem er verðbréfafyrirtæki.
                  51.      Móðurverðbréfafyrirtæki í aðildarríki: Móðurstofnun í aðildarríki sem er verðbréfafyrirtæki.
                  52.      Náin tengsl: Náin tengsl teljast vera til staðar þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar tengjast með einhverjum eftirfarandi hætti:
                      a.      með hlutdeild í formi eignarhalds, beint eða með yfirráðum, á 20% eða meira af atkvæðisrétti eða eigin fé fyrirtækis,
                      b.      með yfirráðum,
                      c.      með varanlegum tengslum þeirra beggja eða allra við sama þriðja aðila í gegnum yfirráðatengsl.
                  53.      Raunverulegur eigandi: Raunverulegur eigandi samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
                  54.      Rekstraráhætta: Hætta á tapi sem leiðir af innri ferlum, fólki og kerfum sem eru ófullnægjandi eða hafa brugðist, eða af ytri atburðum, að meðtalinni lagalegri áhættu.
                  55.      Samstæða: Samstæða fyrirtækja þar sem a.m.k. eitt er fjármálafyrirtæki og sem samanstendur af móðurfélagi og dótturfélögum þess, eða fyrirtækjum sem heyra undir sama samstæðureikning.
                  56.      Samstæðugrunnur: Á grundvelli stöðu samstæðu.
                  57.      Seðlabanki: Seðlabanki Evrópu eða seðlabanki ríkis.
                  58.      Skipulegur markaður: Skipulegur markaður samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.
                  59.      Skilaaðili: Skilaaðili samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                  60.      Skilasamstæða: Skilasamstæða samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                  61.      Skilastjórnvald: Skilastjórnvald samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                  62.      Sparisjóður: Lánastofnun sem er heimilt að taka á móti innlánum og starfar skv. VIII. kafla.
                  63.      Staða samstæðu: Sú staða sem fæst með því að beita kröfum gagnvart fjármálafyrirtæki líkt og ef það myndaði, ásamt einum eða fleiri öðrum aðilum, eitt fjármálafyrirtæki.
                  64.      Staðbundið fyrirtæki: Fyrirtæki sem stundar viðskipti fyrir eigin reikning á mörkuðum fyrir staðlaða framvirka samninga, valrétti eða aðrar afleiður og á lausafjármörkuðum, eingöngu í þeim tilgangi að verja stöður á afleiðumörkuðum, eða það stundar viðskipti fyrir reikning annarra sem eiga aðild að sömu mörkuðum og þar sem gert er ráð fyrir að uppgjörsaðilar ábyrgist að staðið verði við samninga sem slíkt fyrirtæki gerir.
                  65.      Starfsleyfi: Hvers konar skjal gefið út af yfirvöldum sem veitir rétt til starfsemi.
                  66.      Stöður sem haldið er vegna veltuviðskipta: Einhver af eftirfarandi stöðum:
                      a.      stöður fyrir eigin reikning og stöður sem tengjast tiltekinni þjónustu fyrir viðskiptavin og viðskiptavakt,
                      b.      stöður sem ætlunin er að selja aftur innan skamms tíma,
                      c.      stöður sem teknar eru til að hagnast á skammtímamismun á milli kaup- og söluverðs eða öðrum verð- og vaxtabreytingum.
                  67.      Umsýsluaðili: Fjármálafyrirtæki, sem ekki er upphafsaðili, sem stofnar til og stýrir eignatryggðri útgáfu skammtímabréfa eða annarri verðbréfun sem kaupir áhættuskuldbindingar frá þriðja aðila.
                  68.      Undirsamstæðugrunnur: Á grundvelli stöðu samstæðu móðurstofnunar, eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi, að undanskilinni undireiningasamstæðu, eða á grundvelli stöðu samstæðu móðurstofnunar, eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem ekki er hin endanlega móðurstofnun, eignarhaldsfélag á fjármálasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi.
                  69.      Upphafsaðili: Aðili sem:
                      a.      annaðhvort sjálfur eða fyrir tilstuðlan tengdra aðila, beint eða óbeint, átti aðild að upphaflega samningnum sem myndaði skuldbindingarnar eða mögulegar skuldbindingar skuldara eða mögulegs skuldara sem valda því að áhættuskuldbindingin er verðbréfuð eða
                      b.      kaupir áhættuskuldbindingar þriðja aðila fyrir eigin reikning og verðbréfar þær síðan.
                  70.      Útibú: Starfsstöð sem lögum samkvæmt er háð fjármálafyrirtæki, sem hún er hluti af, og annast með beinum hætti öll eða hluta þeirra viðskipta sem fjármálafyrirtæki stundar. Allar starfsstöðvar, sem komið hefur verið á fót í einu aðildarríki á vegum lánastofnunar sem hefur aðalskrifstofu sína í öðru aðildarríki, teljast eitt útibú.
                  71.      Venslaðir aðilar: Til venslaðra aðila teljast tengdir aðilar samkvæmt settum reikningsskilareglum, sbr. lög um ársreikninga. Til venslaðra aðila geta einnig talist aðrir aðilar sem Fjármálaeftirlitið metur að eigi beinna og skyldra hagsmuna að gæta vegna starfsemi fjármálafyrirtækis.
                  72.      Vátryggingafélag: Frumtryggingafélag samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
                  73.      Vátryggingafélag utan Evrópska efnahagssvæðisins: Félag sem þyrfti starfsleyfi sem vátryggingafélag ef aðalskrifstofa þess væri á Evrópska efnahagssvæðinu.
                  74.      Veltubók: Allar stöður í fjármálagerningum og hrávörum sem fjármálafyrirtæki heldur, annaðhvort vegna veltuviðskipta eða til að verja stöður sem haldið er vegna veltuviðskipta í samræmi við 104. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
                  75.      Verðbréfafyrirtæki: Verðbréfafyrirtæki samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, að frátöldum lánastofnunum, staðbundnum fyrirtækjum og fyrirtækjum skv. 8. mgr. 14. gr. a.
                  76.      Verðbréfuð staða: Áhættuskuldbinding vegna verðbréfunar.
                  77.      Verðbréfun: Viðskiptasamningur eða kerfisfyrirkomulag þar sem útlánaáhætta sem tengist ákveðinni áhættuskuldbindingu eða safni áhættuskuldbindinga er skipt í áhættulög eignasafns og hefur bæði eftirfarandi einkenni:
                      a.      greiðslur samkvæmt viðskiptasamningnum eða kerfisfyrirkomulaginu eru háðar afkomu og efndum af áhættuskuldbindingunni eða safni áhættuskuldbindinga,
                      b.      forgangsröðun áhættulaganna ákvarðar dreifingu taps á líftíma viðskiptasamningsins eða kerfisfyrirkomulagsins.
                  78.      Viðeigandi reikningsskilaumgjörð: Reikningsskilastaðlar sem gilda um fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum þessum eða reglugerð (EB) nr. 1606/2002, sbr. lög um ársreikninga.
                  79.      Viðskiptabanki: Lánastofnun sem er heimilt að taka á móti innlánum og er ekki sparisjóður.
                  80.      Viðurkennd kauphöll: Kauphöll sem uppfyllir öll eftirfarandi skilyrði:
                      a.      hún er skipulegur markaður eða markaður í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem telst jafngildur skipulegum markaði samkvæmt jafngildisákvörðun sem hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið,
                      b.      hún hefur greiðslujöfnunarkerfi þar sem daglegar kröfur um tryggingarfé vegna samninganna sem um getur í II. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 575/2013 veita nægilega vernd að mati lögbærra yfirvalda.
                  81.      Vogun: Hlutfallsleg stærð eigna, skuldbindinga utan efnahags og óvissra skuldbindinga um að greiða, afhenda eða veita tryggingu, þ.m.t. skuldbindingar sem leiða af móttekinni fjármögnun, skuldbindingum sem gengist hefur verið í, afleiðum eða endurhverfum verðbréfakaupum, en að undanskildum skuldbindingum sem einungis er hægt að framfylgja komi til slita á fjármálafyrirtæki, samanborið við eiginfjárgrunn þess fjármálafyrirtækis.
                  82.      Yfirráð: Tengsl milli móðurfélags og dótturfélags, eins og þau eru skilgreind í lögum um ársreikninga, eða sambærilegt samband milli einstaklings eða lögaðila og fyrirtækis.
                  83.      Þriðjaríkissamstæða: Samstæða þar sem móðurfélagið er með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     b.      2. mgr. fellur brott.

6. gr.

    Í stað orðanna „undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í 146. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB“ í 7. mgr. 14. gr. laganna kemur: framseldar reglugerðir og framkvæmdarreglugerðir skv. 1. mgr. 117. gr. a.

7. gr.

    Í stað orðanna „undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í 146. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB“ í 14. mgr. 14. gr. a laganna kemur: framseldar reglugerðir og framkvæmdarreglugerðir skv. 1. mgr. 117. gr. a.

8. gr.

    Á eftir orðinu „vátryggingafélaga“ í 2. málsl. 3. mgr. 21. gr. laganna kemur: endurtryggingafélaga.

9. gr.

    Á eftir orðinu „vátryggingafélag“ í 23. gr. laganna kemur: eða endurtryggingafélag.

10. gr.

    4. mgr. 29. gr. a laganna fellur brott.

11. gr.

    Í stað orðanna „leitast við“ í 1. málsl. 2. mgr. 31. gr. a laganna kemur: gera allt sem í valdi þess stendur til.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 42. gr. a laganna:
     a.      Á eftir orðinu „vátryggingafélag“ í 1. málsl. kemur: endurtryggingafélag.
     b.      Orðin „án ástæðulausrar tafar“ í 2. málsl. falla brott.
     c.      Við bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Upplýsingarnar skulu veittar án ástæðulausrar tafar. Fjármálaeftirlitið skal, þegar það tilkynnir þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut um niðurstöðu mats síns, greina frá þeim sjónarmiðum og fyrirvörum sem lögbært yfirvald þess hins sama hefur látið í ljós við samráðið.

13. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 43. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

    Í stað orðanna „skilaeining“ og „samstæðu innan skilameðferðar“ í 2. tölul. 2. mgr. 49. gr. b laganna kemur: skilaaðili; og: skilasamstæðu.

15. gr.

    Á eftir tilvísuninni „19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010“ í 1. málsl. 2. mgr. 49. gr. e laganna kemur: eða 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1094/2010.

16. gr.

    Í stað orðsins „skilavalds“ í b-lið 49. gr. i laganna kemur: skilastjórnvalds.

17. gr.

    Á eftir orðinu „vátryggingafélags“ í 1. málsl. 2. mgr. 52. gr. a laganna kemur: endurtryggingafélags.

18. gr.

    2.–4. mgr. 52. gr. e laganna falla brott.

19. gr.

    1. mgr. 57. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálafyrirtæki skal varðveita gögn um lán til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og gera þau aðgengileg Fjármálaeftirlitinu óski það eftir því. Sama gildir um lán til maka, barna og foreldra stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra og fyrirtækja sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri eða maki, barn eða foreldri hans á virkan eignarhlut í, gegnir í stöðu stjórnarmanns, framkvæmdastjóra eða stjórnanda sem svarar beint til framkvæmdastjóra eða getur af öðrum sökum haft veruleg áhrif á.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. b laganna:
     a.      Í stað orðanna „Allt að fjórðungur kaupauka má bera vexti“ í 3. mgr. kemur: Afvaxta má allt að fjórðung kaupauka.
     b.      Í stað orðsins „vexti“ í 2. málsl. 6. mgr. kemur: afvöxtun.

21. gr.

    Við 57. gr. f laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Eftirfarandi aðilar teljast a.m.k. hafa marktæk áhrif á áhættusnið fjármálafyrirtækis skv. 450. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013:
     a.      stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og stjórnendur sem svara beint til framkvæmdastjóra,
     b.      starfsmenn sem stýra eftirlitseiningum eða mikilvægum rekstrareiningum,
     c.      starfsmenn sem gegna störfum innan mikilvægra rekstrareininga sem hafa veruleg áhrif á áhættusnið þeirra eininga og sem áttu á undangengnu reikningsári rétt á launagreiðslum sem voru a.m.k. jafnvirði 500 þús. evra og a.m.k. jafn háar og meðallaunagreiðslur fyrirtækisins til einstaklinga skv. a-lið.
    Seðlabanki Íslands setur nánari reglur um hvaða hópar starfsfólks teljast við störf sín hafa marktæk áhrif á áhættusnið fjármálafyrirtækis.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. málsl. 5. mgr. 77. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „hefur dótturfélag“ kemur: hefur dóttur- eða hlutdeildarfélag.
     b.      Orðin „eða á hlutdeild í slíku félagi“ falla brott.

23. gr.

    Í stað orðsins „útgefandi“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 78. gr. d laganna kemur: upphafsaðili.

24. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „10. tölul.“ í 1. mgr. 78. gr. f laganna kemur: 7. tölul.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 78. gr. i laganna:
     a.      Í stað orðanna „áhættu sem hlýst af óhóflegri vogun“ í 1. málsl. 1. mgr., „óhóflega vogun“ í 2. málsl. 1. mgr., „áhættu vegna óhóflegrar vogunar“ í 1. málsl. 2. mgr. og 3. mgr. og „áhættu af óhóflegri vogun“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: hættu á of mikilli vogun.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Hætta á of mikilli vogun.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 81. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „12. tölul.“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: 7. tölul.
     b.      Í stað orðanna „áhættu vegna óhóflegrar vogunar“ og „áhættu vegna vogunar“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: hættu á of mikilli vogun.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 2. mgr. orðast svo: eftir kröfu Fjármálaeftirlitsins hafi það afturkallað starfsleyfi fyrirtækisins eða synjað því um frest til að auka eigið fé sitt yfir það lágmark sem mælt er fyrir um í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 eða ef frestur sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt til þess er á enda án þess að fyrirtækið hafi aukið eigið fé sitt fram yfir það lágmark.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „skv. 2. mgr. 52. gr. e“ í 5. mgr. kemur: til að auka eigið fé sitt yfir það lágmark sem mælt er fyrir um í reglugerð (ESB) nr. 575/2013.

28. gr.

    9. mgr. 107. gr. laganna orðast svo:
    Lánastofnun skal svo fljótt sem kostur er á upplýsa Fjármálaeftirlitið um breytingar á nánum tengslum sínum við aðra aðila.

29. gr.

    Í stað orðanna „óhóflegrar vogunar“ í 7. mgr. 107. gr. a laganna kemur: hættu á of mikilli vogun.

30. gr.

    Í stað orðsins „hliðarstarfsemi“ í 1. málsl. 109. gr. y laganna kemur: viðbótarstarfsemi.

31. gr.

    39. tölul. 1. mgr. 110. gr. laganna orðast svo: 57. gr. um viðskipti stjórnarmanna og starfsmanna við fjármálafyrirtæki.

32. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 20. tölul. 1. mgr. 112. gr. b laganna kemur: 2. mgr.

33. gr.

    1. mgr. 117. gr. a laganna orðast svo:
    Ráðherra setur reglugerð til að innleiða framseldar reglugerðir og framkvæmdarreglugerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir og varða efni laga þessara. Í slíkri reglugerð má m.a. fjalla um:
     1.      Nánari útfærslu orðskýringa.
     2.      Verðlagsuppfærslu fjárhæða í ákvæðum um stofnframlag verðbréfafyrirtækja og skyldra fyrirtækja.
     3.      Heimildir lána- og fjármálastofnana til að starfa yfir landamæri.
     4.      Upplýsingaskipti lögbærra yfirvalda.
     5.      Meðhöndlun áhættuþátta og könnunar- og matsferli.
     6.      Skil fjármálafyrirtækja sem eru kerfislega mikilvæg á alþjóðavísu á ríki-fyrir-ríki skýrslum.
     7.      Mat á hæfi fyrirhugaðra eigenda virkra eignarhluta í lánastofnunum.
     8.      Uppfærslu fjárhæða í ákvæðum um stofnframlag fjármálafyrirtækja.

34. gr.

    1. mgr. 117. gr. b laganna orðast svo:
    Seðlabanki Íslands setur reglur til að innleiða reglugerðir um tæknilega eftirlits- og framkvæmdarstaðla sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir og varða efni laga þessara. Í slíkum reglum má m.a. fjalla um:
     1.      Kröfur við veitingu starfsleyfis, sbr. II. kafla.
     2.      Upplýsingagjöf vegna starfsemi lánastofnunar í öðru aðildarríki, sbr. V. kafla.
     3.      Samstarfshóp eftirlitsaðila, sbr. 2. mgr. 36. gr. a og 109. gr. j.
     4.      Samráð lögbærra yfirvalda við mat á fyrirhugaðri öflun eða aukningu á virkum eignarhlut í lánastofnun, sbr. 2. mgr. 42. gr. a.
     5.      Gerninga sem eru nýttir við greiðslu kaupauka, sbr. 10. tölul. 1. mgr. 57. gr. b.
     6.      Mat á áhættu af vaxtabreytingum, sbr. 78. gr. f og 81. gr.
     7.      Staðsetningu útlánaáhættuskuldbindinga, sbr. 85. gr. a.
     8.      Mat á því hvort fjármálafyrirtæki eða samstæður séu kerfislega mikilvægar á alþjóðavísu, sbr. 86. gr. b.
     9.      Upplýsingar sem lögbær yfirvöld skulu birta, sbr. 107. gr. i.
     10.      Eftirlit með blönduðum eignarhaldsfélögum í fjármálastarfsemi, sbr. 109. gr. a.
     11.      Sameiginlegar ákvarðanir eftirlitsaðila, sbr. 109. gr. d.
     12.      Upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda, sbr. C-hluta XIII. kafla.
     13.      Innri aðferðir við útreikning á eiginfjárkröfum, sbr. D-hluta XIII. kafla.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um skortsölu og skuldatryggingar, nr. 55/2017.

35. gr.

    H-liður 2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo: 4. mgr. 16. gr. um nánari framkvæmd við að ákvarða hvort meginviðskiptavettvangur er í þriðja landi.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um vátryggingasamstæður, nr. 60/2017.

36. gr.

    1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Þótt vátryggingafélög utan aðildarríkja, eignarhaldsfélög á vátryggingasviði, blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi og blönduð eignarhaldsfélög á vátryggingasviði falli undir samstæðueftirlit skv. 3. gr. felur það ekki í sér að Fjármálaeftirlitið fari með eftirlit með hverju og einu félagi, sbr. þó 43. gr. þegar um er að ræða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, nr. 61/2017.

37. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Með hliðsjón af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 104/2004 frá 9. júlí 2004 sem birt var 23. desember 2004 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 65 og nr. 131/2020 frá 25. september 2020 sem birt var 6. júlí 2023 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 52 eru með lögum þessum tekin upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB frá 16. desember 2002 um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og verðbréfafyrirtækjum sem eru hluti af fjármálasamsteypu, með áorðnum breytingum samkvæmt tilskipun 2011/89/ESB.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                      Seðlabanki Íslands setur reglur til að innleiða reglugerðir um tæknilega eftirlits- og framkvæmdarstaðla sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir og varða efni laga þessara. Í slíkum reglum má m.a. fjalla um:
                  1.      Orðskýringar, þar á meðal beitingu skilgreiningar á hlutdeild, sbr. 2. gr.
                  2.      Ferli eða viðmið fyrir ákvörðun á viðkomandi eftirlitsstjórnvaldi, sbr. 10. tölul. 2. gr.
                  3.      Tilgreiningu á viðmiðum fyrir auðkenningu á fjármálasamsteypu, sbr. 7. gr.
                  4.      Beitingu útreikningsaðferða fyrir eiginfjárkröfur fjármálasamsteypa og upplýsingagjöf þar um, sbr. 15. gr. og viðauka.
                  5.      Samþjöppun áhættu, sbr. 21. gr.
                  6.      Viðskipti innan samsteypu, sbr. 22. gr.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. tölul. 1. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 2. mgr. 2. gr. a um markað þriðja lands.
     b.      Á eftir 3. tölul. 1. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 2. mgr. 13. gr. um fyrirkomulag laga, eftirlits og framfylgdar þriðja lands.
     c.      Á eftir 17. tölul. 2. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 5. mgr. 45. gr. um aðferðafræðina við útreikning og viðhald fjárhæðar eigin fjár sem miðlægir mótaðilar þurfa að nota.

X. KAFLI

Breyting á lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020.

39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      33. tölul. fellur brott.
     b.      37. tölul. orðast svo: Virkur eignarhlutur: Bein eða óbein hlutdeild í rekstraraðila sérhæfðra sjóða sem nemur 10% eða meira af hlutafé eða atkvæðisrétti eða sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi rekstraraðila.

40. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Til stofnframlags samkvæmt þessari grein má telja liði skv. a–c- og e-lið 1. mgr. 26. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013, sbr. lög um fjármálafyrirtæki.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „3. mgr.“ í 4. og 5. mgr. kemur: 4. mgr.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „6. og 7. mgr.“ í 1. málsl. 8. mgr. kemur: 7. og 8. mgr.

41. gr.

    Í stað orðsins „dótturfyrirtæki“ í 2. málsl. 1. mgr. og 3. málsl. 2. mgr. 16. gr. laganna kemur: dótturfélag.

42. gr.

    Í stað orðanna „viðskiptamanna í skilningi laga um fjármálafyrirtæki“ í 1. málsl. 5. mgr. 93. gr. laganna kemur: viðskiptavina í skilningi 39. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013, sbr. lög um fjármálafyrirtæki.

XI. KAFLI

Breyting á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020.

43. gr.

    Í stað tölunnar „eitt“ í 3. málsl. 5. mgr. 19. gr. laganna kemur: tvö.

44. gr.

    Á eftir 3. mgr. 57. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Einnig er heimilt, þrátt fyrir 3. mgr., að leggja til fjárframlag skv. 2. mgr. úr skilasjóði þegar:
     1.      framlagið til að mæta tapi og endurfjármögnun, sem um getur í 1. tölul. 3. mgr., samsvarar fjárhæð sem ekki er lægri en 20% af áhættuvegnum eignum fyrirtækisins eða einingarinnar í skilameðferð,
     2.      skilasjóður hefur á að skipa fjárhæð vegna fyrirframgreiddra framlaga sem samsvarar a.m.k. 3% tryggðra innstæðna allra lánastofnana sem hafa starfsleyfi hér á landi,
     3.      eignir fyrirtækisins eða einingarinnar í skilameðferð á samstæðugrunni eru minni en jafnvirði 900 milljarða evra á samstæðugrunni.

45. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „5. mgr.“ í 7. tölul. 1. mgr. 87. gr. laganna kemur: 6. mgr.

XII. KAFLI

Breyting á lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum, nr. 60/2021.

46. gr.

    Í stað orðanna „meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti stjórnenda“ í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: hlutverk og stöðu regluvarðar og skráningu samskipta.

47. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 19. gr. laganna:
     a.      Á eftir tilvísuninni „7.“ í 4. tölul. kemur: og 13.
     b.      Á undan tilvísuninni „9.“ í 7. tölul. kemur: 6. og.

XIII. KAFLI

Breyting á lögum um greiðsluþjónustu, nr. 114/2021.

48. gr.

    Í stað orðsins „dótturfyrirtæki“ í 2. málsl. 1. og 3. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: dótturfélag.

XIV. KAFLI

Breyting á lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.

49. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „52. gr. e“ í 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. laganna kemur: 52. gr. f.

50. gr.

    Orðin „14. gr. og“ í 20. gr. laganna falla brott.

51. gr.

    2. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
    Um kaupaukakerfi og starfslokasamninga verðbréfafyrirtækja sem teljast til fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, fer að öðru leyti skv. C-hluta VII. kafla þeirra laga.

52. gr.

    Í stað orðanna „sex mánaða“ í 3. málsl. 3. mgr. 40. gr. laganna kemur: árs.

53. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „4. mgr.“ í 4. tölul. 2. mgr. 69. gr. laganna kemur: 5. mgr.

XV. KAFLI

Breyting á lögum um verðbréfasjóði, nr. 116/2021.

54. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      23. tölul. fellur brott.
     b.      27. tölul. orðast svo: Virkur eignarhlutur: Bein eða óbein hlutdeild í rekstrarfélagi verðbréfasjóða sem nemur 10% eða meira af hlutafé eða atkvæðisrétti eða sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi rekstrarfélags.

55. gr.

    Við 1. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til stofnframlags má telja liði skv. a–c- og e-lið 1. mgr. 26. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013, sbr. lög um fjármálafyrirtæki.

XVI. KAFLI

Breyting á lögum um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, nr. 25/2023.

56. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 8. gr. laganna:
     a.      Á undan 1. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 3. mgr. 2. gr. a um efni og framsetningu upplýsinga í tengslum við meginregluna um að „valda ekki umtalsverðu tjóni“.
     b.      Á eftir 3. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 4. mgr. 8. gr. um efni og framsetningu upplýsinganna sem um getur í 2. mgr. a sömu greinar.
     c.      Á eftir 4. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 6. mgr. 9. gr. um efni og framsetningu upplýsinganna sem um getur í 4. mgr. a sömu greinar.
     d.      Á eftir 6. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 5. mgr. 11. gr. um efni og framsetningu upplýsinganna sem um getur í c- og d-lið 1. mgr. sömu greinar.

57. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það felur í sér ýmsar lagfæringar á ákvæðum í 16 lagabálkum á fjármálamarkaði.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur orðið vart við eða verið bent á nokkur atriði í löggjöf á fjármálamarkaði sem er talið æskilegt að lagfæra. Ábendingar hafa einkum borist frá Seðlabanka Íslands, Eftirlitsstofnun EFTA og Samtökum fjármálafyrirtækja.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meiri hluti þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu snýr að því að leiðrétta vísanir milli ákvæða, skýra og samræma hugtakanotkun, fella brott úrelt ákvæði og treysta heimildir til að innleiða EES-reglugerðir. Eftirfarandi eru helstu breytingar sem lagðar eru til á einstökum lagabálkum í frumvarpinu:
     1.      Lög um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, nr. 55/1992: Lagt er til að vísun milli ákvæða verði leiðrétt.
     2.      Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997: Lagt er til að tíu ákvæði til bráðabirgða sem hafa lokið hlutverki sínu verði felld brott.
     3.      Lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998 : Lagt er til að ákvæði um heimildir Fjármálaeftirlitsins sem ekki hefur lengur efnislega þýðingu verði fellt brott.
     4.      Lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999: Lagt er til að heildsöluinnlán geti talist til innstæðna í skilningi laganna. Það hefur litla þýðingu fyrir umfang tryggðra innstæðna en hefur þýðingu fyrir forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð fjármálafyrirtækja.
     5.      Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002: Lagt er til að nokkur fjöldi orðskýringa í Evrópugerð sem hefur lagagildi samkvæmt lögunum verði tekinn upp í meginmál laganna (í þann hluta laganna sem er birtur í A-deild Stjórnartíðinda; texti Evrópugerðarinnar, sem er hluti laganna, er birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins), að úrelt ákvæði um reglusetningarheimild Seðlabanka Íslands verði fellt brott, að skerpt verði á ákvæðum um samstarf Fjármálaeftirlitsins við erlend yfirvöld, að felld verði brott ákvæði um viðbrögð Fjármálaeftirlitsins við brotum fjármálafyrirtækis á einum stað í lögunum því að tekið er á sama atriði annars staðar í lögunum, að ákvæði um viðskipti fjármálafyrirtækja við tiltekna tengda aðila verði afmarkaðra, að rætt verði um afvöxtun frekar en ávöxtun í ákvæði um frestaðan kaupauka, að útfært verði nánar hvaða starfsfólk telst hafa marktæk áhrif á áhættusnið fjármálafyrirtækja, að lánastofnunum verði falið að upplýsa Fjármálaeftirlitið að eigin frumkvæði um breytingar á nánum tengslum sínum við aðra aðila og að í ákvæðum sem heimila ráðherra og Seðlabanka Íslands að innleiða reglugerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir verði ekki vísað til ákvæða í evrópskri tilskipun.
     6.      Lög um skortsölu og skuldatryggingar, nr. 55/2017: Lagt er til að vísun til ákvæðis í Evrópugerð verði leiðrétt.
     7.      Lög um vátryggingasamstæður, nr. 60/2017: Lagt er til að framsetningu greinar í lögunum verði breytt til að gæta betur samræmis við grein í Evrópugerð sem hún byggist á.
     8.      Lög um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, nr. 61/2017: Lagt er til að vísun til Evrópugerðar verði uppfærð og að heimild til að innleiða undirgerðir Evrópugerðar sem lögin byggjast á verði lagfærð.
     9.      Lög um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018: Lagt er til að ráðherra og Seðlabanka Íslands verði heimilað að innleiða undirgerðir Evrópugerðar sem lögin byggjast á, sem nú skortir heimildir til að innleiða.
     10.      Lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020: Lagt er til að efni skilgreininga Evrópugerðar sem lögin byggjast á á hugtökunum stofnframlag og virkur eignarhlutur verði tekið upp í lögin og hugtakið dótturfélag notað í stað dótturfyrirtækis í lögunum.
     11.      Lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020 : Lagt er til að heimild skilavaldsins til að vísa ágreiningi við önnur skilastjórnvöld til Eftirlitsstofnunar EFTA verði þrengd lítillega en bætt við heimild til að leggja til fjárframlög úr skilasjóði við tilgreindar aðstæður.
     12.      Lög um aðgerðir gegn markaðssvikum, nr. 60/2021: Lagt er til að ráðherra og Seðlabanka Íslands verði heimilað að innleiða undirgerðir Evrópugerðar sem lögin byggjast á, sem nú skortir heimildir til að innleiða, og að vísun til reglna Seðlabankans verði leiðrétt.
     13.      Lög um greiðsluþjónustu, nr. 114/2021: Lagt er til að hugtakið dótturfélag verði notað í stað dótturfyrirtækis í lögunum.
     14.      Lög um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021: Lagt er til að nokkrar vísanir í lögunum til laga um fjármálafyrirtæki verði lagfærðar. Þá er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilað að veita allt að árs frest til að öðlast verðbréfaréttindi við sérstakar aðstæður í stað sex mánaða frests.
     15.      Lög um verðbréfasjóði, nr. 116/2021: Lagt er til að efni skilgreininga Evrópugerðar sem lögin byggjast á á hugtökunum stofnframlag og virkur eignarhlutur verði tekið upp í lögin.
     16.      Lög um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, nr. 25/2023: Lagt er til að Seðlabanka Íslands verði heimilað að innleiða undirgerðir Evrópugerðar sem lögin byggjast á, sem nú skortir heimildir til að innleiða.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá.
    Lögfesting frumvarpsins gerir stjórnvöldum kleift að innleiða nokkrar EES-reglugerðir sem Íslandi ber að taka upp í landsrétt skv. a-lið 7. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.

5. Samráð.
    Helstu hagsmunaaðilar eru fyrirtæki á fjármálamarkaði og Seðlabanki Íslands. Tillögur í frumvarpinu byggjast m.a. á ábendingum frá fjármálafyrirtækjum og Seðlabankanum.
    Drög að áformaskjali og frummati á áhrifum voru send öðrum ráðuneytum til umsagnar í júní 2023. Engar athugasemdir bárust. Drög að áformaskjali og frummati á áhrifum voru send Seðlabanka Íslands í nóvember sama ár. Gerðar voru nokkrar breytingar á áformaskjalinu með tilliti til ábendinga bankans.
    Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 12. desember 2023 (mál nr. S-259/2023). Veittur var frestur til 9. janúar 2024 til að koma á framfæri athugasemdum. Umsögn barst frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Í umsögninni var því fagnað að áformað væri að breyta 57. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þannig að stjórn þyrfti ekki að taka sérstaklega fyrir hver og ein minni háttar viðskipti við tengda aðila sem ekki fælu í sér hættu á hagsmunaárekstrum heldur gæti samþykkt almennt fyrirkomulag um slík viðskipti. Í umsögninni var lagt til að einnig yrði tekinn til skoðunar áskilnaður greinarinnar um að viðskiptin væru tilkynnt Fjármálaeftirlitinu að fyrra bragði, enda áskildu viðkomandi ákvæði í Evrópulöggjöf aðeins að viðskipti væru skjalfest og gerð aðgengileg lögbærum yfirvöldum óskuðu þau eftir þeim. Þá var bent á að greinin væri að vissu leyti endurtekning á 3. mgr. 55. gr. sömu laga sem felur í sér að viðskiptaerindi stjórnarmanna þurfa að meginreglu til að fara fyrir stjórn eða stjórnarformann til samþykktar eða synjunar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að 1. mgr. 57. gr. laganna verði breytt þannig að ekki verði áskilið að viðskiptin séu tilkynnt Fjármálaeftirlitinu heldur aðeins að fjármálafyrirtæki varðveiti gögn um viðskiptin og geri þau aðgengileg Fjármálaeftirlitinu óski það eftir því.
    Drög að frumvarpi voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 7. mars 2024 (mál nr. S-71/2024). Veittur var frestur til 19. sama mánaðar til að koma á framfæri athugasemdum. Umsögn barst frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Í umsögninni var fyrirhuguðum breytingum á 57. gr. laga um fjármálafyrirtæki fagnað. Lagt var til að skoðað yrði að breyta 40. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021. Greinin kveður á um að starfsmenn verðbréfafyrirtækja sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við fjárfestingarþjónustu og fjárfestingarstarfsemi eða veiti fjárfestingarráðgjöf skuli hafa verðbréfaréttindi. Fjármálaeftirlitið getur þó veitt allt að sex mánaða frest fyrir nýja starfsmenn verðbréfafyrirtækis til að öðlast verðbréfaréttindi og þá sem þurfa vegna breytinga í starfi að hafa verðbréfaréttindi, t.d. vegna stöðuhækkunar, ef sérstakar ástæður mæla með því. Í umsögninni var bent á að próf í verðbréfaréttindum skyldu að jafnaði haldin ekki sjaldnar en árlega og sex mánaða frestur gæti því verið ónægur. Til að koma til móts við þá gagnrýni er í frumvarpinu lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilað að veita allt að árs frest til að öðlast verðbréfaréttindi.

6. Mat á áhrifum.
    Fyrirhuguð lagasetning er ekki talin hafa veruleg áhrif önnur en þau að hún getur einfaldað venjubundin viðskipti fjármálafyrirtækja við tengda aðila. Þá er lagfæring rangra tilvísana og brottfall úreltra ákvæða til þess fallið að gera lög skýrari og aðgengilegri. Lagasetningin hefur ekki mikil áhrif á stjórnsýslu og er ekki talin hafa áhrif á fjárhag ríkisins.
    Íslandi ber skv. 7. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að taka upp í landsrétt Evrópugerðir sem eru teknar upp í samninginn. Gengið hefur verulega á innleiðingarhalla gerða á fjármálamarkaði síðustu misseri, þ.e. fjölda gerða sem hafa verið teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en á eftir að innleiða hér á landi, eins og sést á eftirfarandi línuriti, en betur má ef duga skal. Áformaðar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, lögum um skortsölu og skuldatryggingar, nr. 55/2017, lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, nr. 61/2017, lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018, lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum, nr. 60/2021, og lögum um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, nr. 25/2023, treysta allar heimildir ráðherra eða Seðlabanka Íslands til að innleiða Evrópugerðir sem eru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, og eru þannig liður í því að vinna frekar niður innleiðingarhalla Íslands.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 2. gr. laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, nr. 55/1992, er vísað til vátryggingafélaga sem innheimta iðgjöld skv. 3. mgr. 10. gr. laganna. Greinin á með réttu að vísa til 3. mgr. 11. gr. laganna. Lagt er til að tilvísunin verði leiðrétt.

Um 2. gr.

    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða II, IV, VI, VII, IX, XIII, XIV og XVIII–XX í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, falli brott. Ákvæðin hafa öll lokið hlutverki sínu.

Um 3. gr.

    Í 4. mgr. 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, segir að lendi eftirlitsskyldur aðili, annar en fjármálafyrirtæki, í sérstökum fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleikum þannig að Fjármálaeftirlitið telji þörf á að grípa til sérstakra ráðstafana í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði gildi ákvæði 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki um heimildir Fjármálaeftirlitsins til inngrips í starfsemina.
    Málsgreininni var bætt við 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi með lögum um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008. Þau lög, sem stundum voru kölluð neyðarlögin, voru sett í aðdraganda íslenska bankahrunsins í október 2008. Með lögunum var nýrri 100. gr. a bætt við lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Sú grein veitti Fjármálaeftirlitinu heimild til víðtækra inngripa í starfsemi fjármálafyrirtækja við sérstakar aðstæður í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði.
    Með lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, var nýtt ákvæði um afhendingu fjármálafyrirtækis í erfiðleikum til bráðabirgðastjórnar sett í 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki í stað þess ákvæðis sem fyrir var. Hluti þeirra fyrirmæla sem voru fyrir í greininni var aftur á móti tekinn upp í nýtt ákvæði til bráðabirgða sem átti að gilda til 1. júlí 2010. Bráðabirgðaákvæðið var ítrekað framlengt en því var leyft að falla úr gildi í lok árs 2020. 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki var felld brott með lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, en þau lög kveða mun ítarlegar á um hvernig tekið skuli á erfiðleikum fjármálafyrirtækja.
    Af þessum sökum vísar 4. mgr. 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi ekki lengur til neins gildandi ákvæðis og hefur því ekki lengur efnislegt gildi. Því er lagt til að málsgreinin verði felld brott.

Um 4. gr.

    Í 9. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, er fjallað um greiðslur úr Tryggingarsjóði vegna fjármálafyrirtækja. Í 4. mgr. greinarinnar er hugtakið innstæða skýrt. Í 2. málsl. málsgreinarinnar kemur fram að heildsöluinnlán teljist ekki til innstæðna. Hugtakið heildsöluinnlán er ekki skilgreint í lögunum, en með því er vanalega átt við stór innlán frá stórum aðilum á fjármálamarkaði, einkum lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum, vátryggingafélögum, sjóðum um sameiginlega fjárfestingu og ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra, sem eru á sérumsömdum kjörum sem standa almennum sparifjáreigendum ekki til boða. Innstæður lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga, sjóða um sameiginlega fjárfestingu og ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra eru aftur á móti almennt undanskildar tryggingu skv. 9. mgr. 9. gr. laganna. Af því leiðir að það hefur litla þýðingu fyrir umfang tryggðra innstæðna hvort heildsöluinnlán falli undir hugtakið innstæða eða ekki.
    Það hefur aftur á móti þýðingu fyrir forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð fjármálafyrirtækja skv. 1. mgr. 85. gr. a laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020. Kröfur vegna innstæðna njóta forgangs skv. 1. tölul. þeirrar málsgreinar. Undir þeim tölulið er fjallað um innbyrðis rétthæð krafna vegna innstæðna. Aftast í þeim forgangi, sbr. d-lið töluliðarins, eru kröfur vegna annarra innstæðna en getið er í a–c-lið töluliðarins. Til annarra innstæðna skv. d-lið teljast innstæður sem eru undanskildar tryggingu skv. 9. mgr. 9. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þar undir eiga að falla innlán í eigu lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga, sjóða um sameiginlega fjárfestingu og ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra, líkt og getið var í skýringum á stafliðnum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 38/2021, um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Sökum þess að heildsöluinnlán eru undanþegin skilgreiningu á innstæðum nýtur aftur á móti hluti innlána í eigu þessara aðila ekki þeirrar staðsetningar í kröfuröð sem hann ætti að njóta samkvæmt stafliðnum. Til að bæta úr því er lagt til að orðið „heildsöluinnlán“ verði fellt brott úr 4. mgr. 9. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Með því móti geta heildsöluinnlán talist til innstæðna og notið forgangs skv. d-lið 1. tölul. 1. mgr. 85. gr. a laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja við skila- og slitameðferð fjármálafyrirtækja.

Um 5. gr.

     Um greinina í heild. Lagðar eru til þrenns konar breytingar á orðskýringarákvæði 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Í fyrsta lagi er lagt til að bætt verði við skýringum á hugtökunum viðskiptabanki, sparisjóður og lánafyrirtæki. Það er ekki efnislega nauðsynlegt en er talið gagnlegt fyrir lesendur laganna þar sem um er að ræða grundvallarhugtök í lögunum.
    Í öðru lagi er lagt til að efni flestra skýringa reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 frá 26. júní 2013 um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 á hugtökum sem notuð eru í meginmáli laganna verði tekið upp í greinina í stað þess að vísa til orðskýringa reglugerðarinnar líkt og nú er gert í 2. mgr. greinarinnar. Þeirri breytingu er ætlað að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA. Stofnunin hefur lýst þeirri afstöðu að skýrara geti verið ef þær orðskýringar reglugerðarinnar sem stuðst er við komi fram í meginmáli laganna í stað þess að vísað sé almennt til orðskýringa reglugerðarinnar.
    Breytingin felur í sér að orðskýringum í greininni fjölgar allverulega. Til að taka mið af því er í þriðja lagi lagt til að röð þeirra orðskýringa sem fyrir eru í greininni verði breytt til að orðskýringarnar verði í stafrófsröð.
     Um 1., 18., 20., 22., 24., 27., 29., 31., 32., 35., 37., 45., 53., 64., 70., 71., 75. og 83. tölul. a-liðar. Töluliðirnir eru samhljóða gildandi töluliðum í 1. mgr. 1. gr. b laganna. Röð þeirra er þó breytt til að orðskýringar málsgreinarinnar verði í stafrófsröð. Það er talið æskilegt í ljósi verulega aukins fjölda orðskýringa.
     Um 2. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 27. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á aðila á fjármálamarkaði verði tekin upp í meginmál laganna. Hugtökin fjármálafyrirtæki, fjármálastofnun, félag í viðbótarstarfsemi, vátryggingafélag og endurtryggingafélag eru skilgreind í öðrum töluliðum 1. mgr. 1. gr. b laganna.
    Með vátryggingafélögum og endurtryggingafélögum utan Evrópska efnahagssvæðisins er átt við fyrirtæki sem þyrftu starfsleyfi sem vátryggingafélög eða endurtryggingafélög ef aðalskrifstofur þeirra væru á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 23. og 24. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 og 3. og 6. tölul. 13. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB frá 25. nóvember 2009 um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga.
    Eignarhaldsfélag á vátryggingasviði er skilgreint í f-lið 1. mgr. 212. gr. tilskipunar 2009/138/EB, með breytingum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/89/ESB frá 16. nóvember 2011 um breytingu á tilskipunum 98/78/EB, 2002/87/EB, 2006/48/EB og 2009/138/EB að því er varðar viðbótareftirlit með fjármálaeiningum í fjármálasamsteypu, sem móðurfélag sem er ekki blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi og aðalstarfsemi þess er að yfirtaka og eiga hlutdeild í dótturfélögum, þar sem þessi dótturfélög eru eingöngu eða aðallega vátrygginga- eða endurtryggingafélög, eða vátrygginga- eða endurtryggingafélög í þriðja landi, þar sem að lágmarki eitt af slíkum dótturfélögum er vátrygginga- eða endurtryggingafélag. Efni skilgreiningarinnar var tekið upp í 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um vátryggingasamstæður, nr. 60/2017. Þar er eignarhaldsfélag á vátryggingasviði skilgreint sem félag þar sem meginstarfsemi felst í því að eiga hluti í dótturfélögum sem eru annaðhvort eingöngu eða aðallega vátryggingafélög.
     Fyrirtæki sem eru undanskilin gildissviði tilskipunar 2009/138/EB skv. 4. gr. þeirrar tilskipunar eru vátryggingafélög með takmarkað umfang eða starfsemi. Ákvæðið var innleitt hér á landi með 3. mgr. 3. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016.
     Um 3. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 67. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á áhættulagi verði tekin upp í meginmál laganna. Hugtakið er notað í skilgreiningu frumvarpsins á verðbréfun.
     Um 4. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 22. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á blönduðu eignarhaldsfélagi verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 5. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 21. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á blönduðu eignarhaldsfélagi í fjármálastarfsemi verði tekið upp í meginmál laganna. Í reglugerðinni er hugtakið skilgreint sem blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi skv. 15. tölul. 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB frá 16. desember 2002 um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og verðbréfafyrirtækjum sem eru hluti af fjármálasamsteypu og um breytingu á tilskipunum ráðsins 73/239/EBE, 79/267/EBE, 92/49/EBE, 92/96/EBE, 93/6/EBE og 93/22/EBE og á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/78/EB og 2000/12/EB. Í þeim tölulið, með breytingum samkvæmt tilskipun 2011/89/ESB, er hugtakið skilgreint sem móðurfyrirtæki, sem er ekki eftirlitsskyldur aðili, sem myndar fjármálasamsteypu ásamt dótturfyrirtækjum sínum og öðrum aðilum og a.m.k. eitt dótturfyrirtækjanna er eftirlitsskyldur aðili með skráða skrifstofu á Evrópska efnahagssvæðinu. Eftirlitsskyldur aðili í skilningi tilskipunarinnar er lánastofnun, vátryggingafélag, endurtryggingafélag, verðbréfafyrirtæki, eignastýringarfélag eða rekstraraðili sérhæfðs sjóðs, sbr. 4. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar.
     Um 6. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 33. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á blönduðu móðureignarhaldsfélagi í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 7. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 32. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á blönduðu móðureignarhaldsfélagi í fjármálastarfsemi í aðildarríki verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 8. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 16. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á dótturfélagi verði tekið upp í meginmál laganna. Dótturfélag er skilgreint þar sem dótturfélag í skilningi 1. og 2. gr. sjöundu tilskipunar ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 byggð á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans um samstæðureikninga og sem dótturfélag í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 83/349/EBE og félag þar sem móðurfélag hefur veruleg áhrif. Dótturfélög dótturfélaga skulu teljast dótturfélög þess félags sem er upphaflegt móðurfélag þeirra.
    Tilskipun 83/349/EBE var felld brott með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/34/ESB frá 26. júní 2013 um árleg reikningsskil, samstæðureikningsskil og tilheyrandi skýrslur tiltekinna tegunda fyrirtækja, um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB og niðurfellingu tilskipana ráðsins 78/660/EBE og 83/349/EBE. Ákvæði sem svara til 1. og 2. gr. tilskipunar 83/349/EBE eru nú í 1.–5. mgr. 22. gr. tilskipunar 2013/34/ESB. Þar er ekki eiginleg skilgreining á dótturfélagi en fjallað um hvenær fyrirtæki skuli semja samstæðureikning.
    Skilgreiningin sem lögð er til í frumvarpinu er samhljóða skilgreiningu á dótturfélagi sem bætt var við lög um fjármálafyrirtæki með breytingalögum nr. 57/2015.
     Um 9. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 41. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/876 frá 20. maí 2019 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar vogunarhlutfall, hlutfall stöðugrar fjármögnunar, kröfur um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar, útlánaáhættu mótaðila, markaðsáhættu, áhættuskuldbindingar gagnvart miðlægum mótaðilum, áhættuskuldbindingar gagnvart sjóðum um sameiginlega fjárfestingu, stórar áhættuskuldbindingar, skýrslugjafarskyldu og birtingarkröfur og reglugerð (ESB) nr. 648/2012, á eftirlitsaðila á samstæðugrunni verði tekin upp í meginmál laganna. Þar kemur fram að átt sé við lögbært yfirvald sem beri ábyrgð á framkvæmd eftirlits á samstæðugrunni í samræmi við 111. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB frá 26. júní 2013 um aðgang að starfsemi lánastofnana og varfærnieftirlit með lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum, um breytingu á tilskipun 2002/87/EB og um niðurfellingu á tilskipunum 2006/48/EB og 2006/49/EB. Sú grein var innleidd hér á landi með 109. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, sem tilgreinir hvenær Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit á samstæðugrunni.
     Um 10. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 118. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á eiginfjárgrunni verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 11. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 20. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/876, á eignarhaldsfélagi á fjármálasviði verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 12. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 19. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á eignastýringarfélagi verði tekið upp í meginmál laganna. Eignastýringarfélag er skilgreint í reglugerðinni sem eignastýringarfélag skv. 5. tölul. 2. gr. tilskipunar 2002/87/EB eða stjórnandi fagfjárfestasjóðs skv. b-lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/61/ESB frá 8. júní 2011 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og um breytingu á tilskipunum 2003/41/EB og 2009/65/EB og reglugerðum (EB) nr. 1060/2009 og (ESB) nr. 1095/2010, að meðtöldum aðilum í þriðju löndum, nema annað sé tekið fram, sem falla undir lög þriðja lands sem beitir a.m.k. jafn ströngum kröfum um eftirlit og samkvæmt reglum sem beitt er á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í 5. tölul. 2. gr. tilskipunar 2002/87/EB eru eignastýringarfélög skilgreind sem rekstrarfélög skv. b-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði eða fyrirtæki sem hafi skráða skrifstofu í þriðja landi og sem þyrfti starfsleyfi samkvæmt þeirri tilskipun ef skráð skrifstofa þess væri á Evrópska efnahagssvæðinu. Í b-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/65/EB er rekstrarfélag skilgreint sem félag sem annast rekstur verðbréfasjóða í formi fjárhaldssjóða eða fjárfestingarfélaga. Efni skilgreiningarinnar var tekið upp í 18. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um verðbréfasjóði, nr. 116/2021. Þar er rekstrarfélag verðbréfasjóða skilgreint sem lögaðili sem reki einn eða fleiri verðbréfasjóði með reglubundnum hætti.
    Í b-lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/61/ESB eru rekstraraðilar sérhæfðra sjóða (sem er þýðing á sama hugtaki og er þýtt sem „stjórnandi fagfjárfestasjóðs“ í 19. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013) skilgreindir sem lögaðilar sem hafi það að reglulegu starfi að starfrækja einn eða fleiri sérhæfða sjóði. Efni skilgreiningarinnar var tekið upp í 26. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020. Þar er rekstraraðili skilgreindur sem lögaðili sem reki einn eða fleiri sérhæfða sjóði með reglubundnum hætti.
     Um 13. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 66. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á sérstökum verðbréfunaraðila verði tekin upp í meginmál laganna . Hugtakið eining um sérverkefni á sviði verðbréfunar er notað í stað sérstaks verðbréfunaraðila til að gæta samræmis við gildandi hugtakanotkun í 7. mgr. 78. gr. h laganna.
     Um 14. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 82. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á endurhverfum verðbréfakaupum verði tekin upp í meginmál laganna. Hugtakið er í frumvarpinu notað í skilgreiningu á vogun.
     Um 15. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á endurtryggingafélagi verði tekið upp í meginmál laganna. Endurtryggingafélag er skilgreint þar með vísun til 4. tölul. 13. gr. tilskipunar 2009/138/EB þar sem orðið er skilgreint sem félag sem hefur fengið starfsleyfi í samræmi við 14. gr. tilskipunarinnar til að reka endurtryggingar. Efni þeirrar skilgreiningar var tekið upp í 12. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, þar sem endurtryggingafélag er skilgreint sem vátryggingafélag sem hefur fengið starfsleyfi til endurtryggingastarfsemi skv. 22. gr. laganna. Endurtryggingastarfsemi er starfsemi sem felst í því að taka á sig áhættu sem vátryggingafélag eða annað endurtryggingafélag hefur látið frá sér, sbr. fyrri málslið 14. tölul. sömu málsgreinar.
     Um 16. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 24. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á endurtryggingafélagi þriðja lands verði tekið upp í meginmál laganna. Í reglugerðinni er hugtakið skilgreint sem endurtryggingafélag þriðja lands eins og það er skilgreint í 6. lið 13. gr. tilskipunar 2009/138/EB. Þar er endurtryggingafélag þriðja lands skilgreint sem félag sem þyrfti starfsleyfi sem endurtryggingafélag í samræmi við 14. gr. tilskipunarinnar ef aðalskrifstofa þess væri í Bandalaginu. Hugtakið endurtryggingafélag utan Evrópska efnahagssvæðisins er notað í skilgreiningu frumvarpsins á aðila á fjármálamarkaði í 2. tölul. ákvæðisins.
     Um 17. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 18. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á félagi í viðbótarstarfsemi verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 19. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 50. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á fjármálagerningi verði tekið upp í meginmál laganna. Í b-lið síðarnefnds töluliðar er vísað til gerninga í C-þætti I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipunum ráðsins 85/611/EBE og 93/6/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/22/EBE. Sú tilskipun var endurútgefin sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB frá 15. maí 2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipun 2002/92/EB og tilskipun 2011/61/ESB, en hliðstæður listi yfir fjármálagerninga er í C-þætti I. viðauka við hana. Tilskipun 2014/65/ESB var innleidd hér á landi með lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021. Fjármálagerningar eru skilgreindir í 17. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna sem verðbréf, peningamarkaðsgerningar, hlutdeildarskírteini, afleiður og losunarheimildir í formi eininga í skilningi laga um loftslagsmál.
     Um 21. tölul. a-liðar. Lagt til að efni skilgreiningar 26. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/876, á fjármálastofnun verði tekið upp í meginmál laganna. Fjármálastofnun er skilgreind þar sem fyrirtæki, annað en fjármálafyrirtæki eða „eignarhaldsfélag sem eingöngu starfar í iðnaði“, sem hefur að meginstarfsemi að afla eignarhluta eða sinna einni eða fleiri tegundum starfsemi sem um getur í 2.–12. tölul. og 15. tölul. I. viðauka við tilskipun 2013/36/ESB, þ.m.t. eignarhaldsfélög á fjármálasviði, blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi, greiðslustofnanir í skilningi 4. tölul. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 frá 25. nóvember 2015 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 2002/65/EB, 2009/110/EB og 2013/36/ESB og á reglugerð (ESB) nr. 1093/2010 og niðurfellingu á tilskipun 2007/64/EB og eignarstýringarfélög, en að undanskildum eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði og blönduðum eignarhaldsfélögum í vátryggingastarfsemi eins og þau eru skilgreind í f- og g-lið 1. mgr. 212. gr. tilskipunar 2009/138/EB.
    „Eignarhaldsfélag sem eingöngu starfar í iðnaði“ er nefnt „pure industrial holding company“ í enskri útgáfu reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Hugtakið er ekki skilgreint í reglugerðinni. Í tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að breytingum á reglugerðinni númer COM(2021)664, sem stundum er kölluð CRR III og er nú til meðferðar hjá stofnunum Evrópusambandsins, er þó lagt til að skilgreiningu á hugtakinu verði bætt við reglugerðina. Þar er miðað við að um sé að ræða eignarhaldsfélag sem fjárfestir aðeins í annars konar rekstri en fjármálastarfsemi. Með tilliti til þess eru í skilgreiningunni í frumvarpinu notuð orðin „hreint iðnaðareignarhaldsfélag“ frekar en „eignarhaldsfélag sem eingöngu starfar í iðnaði“.
    Efni 2.–12. tölul. og 15. tölul. I. viðauka við tilskipun 2013/36/ESB var tekið upp í 2.–12. og 15. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Því er vísað til þeirra ákvæða í skilgreiningunni.
    Í frumvarpinu eru hugtökin eignarhaldsfélag á fjármálasviði, blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi og eignastýringarfélag skilgreind í öðrum töluliðum ákvæðisins. Greiðslustofnun er skilgreind í 4. tölul. 4. gr. tilskipunar (ESB) 2015/2366 sem lögaðili sem hefur fengið starfsleyfi í samræmi við 11. gr. tilskipunarinnar til að veita og framkvæma greiðsluþjónustu á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Efni skilgreiningarinnar var tekið upp í 18. tölul. 3. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 114/2021, þar sem greiðslustofnun er skilgreind sem lögaðili sem fengið hefur starfsleyfi til starfrækslu greiðsluþjónustu samkvæmt lögunum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Eignarhaldsfélag á vátryggingasviði er skilgreint í f-lið 1. mgr. 212. gr. tilskipunar 2009/138/EB, með breytingum samkvæmt tilskipun 2011/89/ESB, sem móðurfélag sem er ekki blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi og aðalstarfsemi þess er að yfirtaka og eiga hlutdeild í dótturfélögum, þar sem þessi dótturfélög eru eingöngu eða aðallega vátrygginga- eða endurtryggingafélög, eða vátrygginga- eða endurtryggingafélög í þriðja landi, þar sem að lágmarki eitt af slíkum dótturfélögum er vátrygginga- eða endurtryggingafélag. Efni skilgreiningarinnar var tekið upp í 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um vátryggingasamstæður, nr. 60/2017, þar sem eignarhaldsfélag á vátryggingasviði er skilgreint sem félag þar sem meginstarfsemi felst í því að eiga hluti í dótturfélögum sem eru annaðhvort eingöngu eða aðallega vátryggingafélög. Blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði er skilgreint í g-lið 1. mgr. 212. gr. tilskipunar 2009/138/EB, með breytingum samkvæmt tilskipun 2011/89/ESB, sem móðurfélag sem er ekki vátryggingafélag, vátryggingafélag í þriðja landi, endurtryggingafélag, endurtryggingafélag í þriðja landi, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag á fjármálasviði þar sem a.m.k. eitt dótturfélaganna er vátryggingafélag eða endurtryggingafélag. Efni skilgreiningarinnar var tekið upp í 7. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um vátryggingasamstæður, nr. 60/2017, þar sem blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði er skilgreint sem félag sem ekki er vátryggingafélag, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi og a.m.k. eitt dótturfélag er vátryggingafélag.
     Um 23. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 44. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á gistiaðildarríki verði tekin upp í meginmál laganna. Sá munur er þó á að í frumvarpinu er notað orðið gistiríki og ólíkt reglugerðinni miðast skilgreining frumvarpsins ekki aðeins við aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið heldur er tekið mið af því að í meginmáli laganna er hugtakið ekki aðeins notað um fjármálafyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu heldur einnig fjármálafyrirtæki utan þess.
     Um 25. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 121. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á hagnaði verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 26. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 43. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á heimaaðildarríki verði tekin upp í meginmál laganna. Sá munur er þó á að í frumvarpinu er notað orðið heimaríki og ólíkt reglugerðinni miðast skilgreining frumvarpsins ekki aðeins við aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið heldur er tekið mið af því að í meginmáli laganna er hugtakið ekki aðeins notað um fjármálafyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu heldur einnig fjármálafyrirtæki utan þess.
     Um 28. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 94. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á hættu á of mikilli vogun verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 30. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 75. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á íbúðarhúsnæði verði tekin upp í meginmál laganna. Síðari hluti skilgreiningar reglugerðarinnar („þ.m.t. réttur til búsetu í íbúð húsnæðissamvinnufélags í Svíþjóð“) er þó ekki tekinn upp þar sem hann lýtur aðeins að Svíþjóð.
     Um 33. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2013/36/ESB á stofnun sem er mikilvæg innan kerfis verði tekin upp í meginmál laganna. Þó er lagt til að frekar verði notað hugtakið kerfislega mikilvægt fjármálafyrirtæki til samræmis við gildandi hugtakanotkun í lögunum. Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ákvarðar hvaða eftirlitsskyldir aðilar teljast kerfislega mikilvægir skv. d-lið 13. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, sbr. einnig 86. gr. e laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     Um 34. tölul. a-liðar. Lagt er til að hugtakið lánafyrirtæki verði skilgreint. Lánafyrirtæki eru ein þriggja tegunda lánastofnana, en hinar tvær tegundirnar eru viðskiptabankar og sparisjóðir. Það sem greinir lánafyrirtæki frá viðskiptabönkum og sparisjóðum er að lánafyrirtækjum er óheimilt að taka á móti innlánum, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
     Um 36. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 98. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á utanaðkomandi lánshæfismatsfyrirtæki verði tekin upp í meginmál laganna. Hugtakið lánshæfismatsfyrirtæki er notað til að gæta samræmis við gildandi hugtakanotkun í 2. mgr. 54. gr. a og 2. mgr. 78. gr. a laganna. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1060/2009 frá 16. september 2009 um lánshæfismatsfyrirtæki, sem vísað er til í skilgreiningunni, hefur lagagildi hér á landi skv. 2. gr. laga um lánshæfismatsfyrirtæki, nr. 50/2017.
     Um 38. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 40. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á lögbæru yfirvaldi verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 39. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 141. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/876, á markaðsáhættu verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 40. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 34. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á miðlægum mótaðila verði tekið upp í meginmál laganna. Þar er miðlægur mótaðili skilgreindur með vísun til 1. tölul. 2. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 frá 4. júlí 2012 um OTC-afleiður miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár þar sem segir að miðlægur mótaðili sé lögaðili sem gangi á milli mótaðila að samningum sem viðskipti eru með á einum eða fleiri fjármálamörkuðum og verði þar með kaupandi gagnvart hverjum seljanda og seljandi gagnvart hverjum kaupanda.
     Um 41. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 57. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á mildun útlánaáhættu verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 42. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 31. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á móðureignarhaldsfélagi á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 43. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 30. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á móðureignarhaldsfélagi á fjármálasviði í aðildarríki verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 44. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 15. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á móðurfélagi verði tekið upp í meginmál laganna. Móðurfélag er skilgreint þar sem móðurfélag í skilningi 1. og 2. gr. tilskipunar 83/349/EBE og, að því er II. þátt 3. og 4. kafla VII. bálks og VIII. bálk tilskipunar 2013/36/ESB og fimmta hluta reglugerðarinnar varðar, sem móðurfélag í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 83/349/EBE og hvert það félag sem hefur veruleg áhrif í öðru félagi.
    Tilskipun 83/349/EBE var felld brott með tilskipun 2013/34/ESB. Ákvæði sem svara til 1. og 2. gr. tilskipunar 83/349/EBE eru nú í 1.–5. mgr. 22. gr. tilskipunar 2013/34/ESB. Þar er ekki eiginleg skilgreining á móðurfélagi en fjallað um hvenær fyrirtæki skuli semja samstæðureikning.
    Skilgreiningin sem lögð er til í frumvarpinu er samhljóða skilgreiningu á móðurfélagi sem bætt var við lög um fjármálafyrirtæki með breytingalögum nr. 57/2015.
     Um 46. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 29. tölul. d 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/876, á móðurlánastofnun á Evrópska efnahagssvæðinu verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 47. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 29. tölul. c 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/876, á móðurlánastofnun í aðildarríki verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 48. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 28. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/876, á móðurstofnun í aðildarríki verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 49. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 29. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á móðurstofnun á Evrópska efnahagssvæðinu verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 50. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 29. tölul. b 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/876, á verðbréfamóðurstofnun á Evrópska efnahagssvæðinu verði tekin upp í meginmál laganna. Þó er lagt til að frekar verði notað hugtakið móðurverðbréfafyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu til samræmis við gildandi hugtakanotkun í 109. gr. b laganna.
     Um 51. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 29. tölul. a 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/876, á verðbréfamóðurstofnun í aðildarríki verði tekin upp í meginmál laganna. Þó er lagt til að frekar verði notað hugtakið móðurverðbréfafyrirtæki í aðildarríki til samræmis við gildandi hugtakanotkun í 109. gr. b laganna.
     Um 52. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 38. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á nánum tengslum verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 54. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 52. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á rekstraráhættu verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 55. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 138. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/876, á samstæðu verði tekið upp í meginmál laganna. Samstæða er skilgreind þar sem samstæða fyrirtækja þar sem a.m.k. eitt er fjármálafyrirtæki og sem samanstendur af móðurfélagi og dótturfélögum þess, eða fyrirtækjum sem eru tengd hvert öðru eins og sett er fram í 22. gr. tilskipunar 2013/34/ESB. Ákvæði 22. gr. tilskipunar 2013/34/ESB fjallar um hvenær fyrirtæki skuli semja samstæðureikning. Tilskipunin var innleidd hér á landi með lögum um ársreikninga, nr. 3/2006.
     Um 56. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 48. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á samstæðugrunni verði tekin upp í meginmál laganna. Skilgreiningin styðst við skilgreiningu á stöðu samstæðu sem er tekin upp í 63. tölul.
     Um 57. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 46. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á seðlabönkum verði tekið upp í meginmál laganna. Seðlabankar eru skilgreindir þar sem seðlabankar seðlabankakerfis Evrópu og seðlabankar þriðju landa. Seðlabankar seðlabankakerfis Evrópu eru skilgreindir í 45. tölul. sömu málsgreinar sem seðlabankar aðildarríkja sem eru aðilar að seðlabankakerfi Evrópu og Seðlabanki Evrópu. Öll aðildarríki Evrópusambandsins eru aðilar að seðlabankakerfi Evrópu. Samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2019 frá 29. mars 2019 ber að skilja tilvísanir til „aðila að seðlabankakerfi Evrópu“ eða til „seðlabanka“ í reglugerðinni þannig að þær taki til seðlabanka EFTA-ríkjanna, til viðbótar við merkingu þeirra í reglugerðinni. Með þriðju löndum í reglugerðinni er átt við lönd utan Evrópska efnahagssvæðisins. Af þessu leiðir að í 46. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 er vísað til Seðlabanka Evrópu og seðlabanka allra ríkja.
     Um 58. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 92. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á skipulegum markaði verði tekið upp í meginmál laganna, en þar er vísað til skilgreiningar í 14. tölul. 4. gr. tilskipunar 2004/39/EB. Sú tilskipun var endurútgefin sem tilskipun 2014/65/ESB. Hliðstæð skilgreining á skipulegum markaði er í 21. tölul. 1. mgr. 4. gr. hennar. Tilskipun 2014/65/ESB var innleidd hér á landi með lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021. Í 57. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna er skipulegur markaður skilgreindur sem marghliða kerfi innan Evrópska efnahagssvæðisins sem leiðir saman kaupendur og seljendur fjármálagerninga, í samræmi við ófrávíkjanlegar reglur þess, þannig að til samninga stofnast um fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta í kerfinu.
     Um 59. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 131. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/876, á skilaeiningu verði tekið upp í meginmál laganna, en þar er vísað til 83. tölul. a 1. mgr. 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB frá 15. maí 2014 sem kemur á ramma um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og breytingu á tilskipun ráðsins 82/891/EBE og tilskipunum 2001/24/EB, 2002/47/EB, 2004/25/EB, 2005/56/EB, 2007/36/EB, 2011/35/ESB, 2012/30/ESB og 2013/36/ESB og reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010 og (ESB) nr. 648/2012. Þar er aðili í skilameðferð skilgreindur sem a) lögaðili með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu sem, í samræmi við 12. gr. tilskipunarinnar, er auðkenndur af hálfu skilastjórnvaldsins sem aðili sem skilaaðgerðin í skilaáætluninni tekur til eða b) stofnun sem er ekki hluti af samstæðu, sem fellur undir samstæðueftirlit skv. 111. og 112. gr. tilskipunar 2013/36/ESB, og sem skilaáætlunin, sem var samin skv. 10. gr. tilskipunarinnar, kveður á um skilaaðgerð í tengslum við.
    Tilskipun 2014/59/ESB var innleidd hér á landi með lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020. Í 32. tölul. 3. gr. laganna er skilaaðili skilgreindur sem a) fyrirtæki sem skilaáætlun skv. 9. gr. laganna hefur verið útbúin fyrir enda sé það ekki hluti af samstæðu sem fellur undir samstæðueftirlit samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, eða b) lögaðili með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu enda hafi hann verið tilgreindur af skilavaldinu sem skilaaðili í skilaáætlun samstæðu skv. 10. gr. laganna.
     Um 60. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 132. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/876, á skilasamstæðu verði tekið upp í meginmál laganna. Í reglugerðinni er vísað til 83. tölul. b 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2014/59/ESB. Þar er skilasamstæða skilgreind sem a) aðili í skilameðferð og dótturfélög hans sem eru ekki: i. sjálfir aðilar í skilameðferð, ii. dótturfélög annarra aðila í skilameðferð eða iii. aðilar með staðfestu í þriðja landi sem í samræmi við skilaáætlun eru ekki í skilasamstæðunni og dótturfélög þeirra, eða b) lánastofnanir sem eru varanlega tengdar miðlægri stofnun og miðlæga stofnunin sjálf, þegar a.m.k. ein þessara lánastofnana eða miðlæga stofnunin er aðili í skilameðferð, og dótturfélög hvers um sig.
    Tilskipun 2014/59/ESB var innleidd hér á landi með lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020. Í 34. tölul. 3. gr. laganna er skilasamstæða skilgreind sem a) skilaaðili og dótturfélög hans enda séu þau ekki skilaaðilar sjálf, dótturfélög annarra skilaaðila og aðilar með staðfestu í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem eru ekki hluti af skilasamstæðu samkvæmt skilaáætlun og dótturfélög þeirra, eða b) lánastofnanir og dótturfélög þeirra sem eru varanlega tengd miðlægri stofnun og miðlæga stofnunin sjálf og dótturfélög hennar enda teljist a.m.k. ein þessara lánastofnana eða miðlæga stofnunin skilaaðili.
     Um 61. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 130. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/876, á skilastjórnvaldi verði tekið upp í meginmál laganna. Í reglugerðinni er vísað til 18. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2014/59/ESB, þar sem skilavald er skilgreint sem yfirvald sem aðildarríki tilnefnir í samræmi við 3. gr. tilskipunarinnar.
    Tilskipun 2014/59/ESB var innleidd hér á landi með lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020. Í 35. tölul. 3. gr. laganna er skilastjórnvald skilgreint sem stjórnvald sem fer með undirbúning og framkvæmd skilameðferðar.
     Um 62. tölul. a-liðar. Lagt er til að hugtakið sparisjóður verði skilgreint. Sparisjóðir eru ein þriggja tegunda lánastofnana, en hinar tvær tegundirnar eru viðskiptabankar og lánafyrirtæki. Sparisjóðum svipar til viðskiptabanka. Um sparisjóði gilda þó sérreglur skv. VIII. kafla laga um fjármálafyrirtæki sem ekki gilda um viðskiptabanka, þar á meðal um samfélagslegt hlutverk og ráðstöfun hagnaðar, rekstrarform og viðskipti með hluti.
     Um 63. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 47. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á stöðu samstæðu verði tekin upp í meginmál laganna. Vísun til krafna samkvæmt reglugerðinni er þó ekki tekin upp í skilgreininguna í frumvarpinu því að skilgreiningin í meginmáli laganna á ekki að takmarkast við kröfur sem koma fram í reglugerðinni. Hugtakið er notað í skilgreiningum á samstæðugrunni og undirsamstæðugrunni í frumvarpinu.
     Um 65. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 42. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á starfsleyfi verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 66. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 85. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á stöðum sem eru ætlaðar til veltuviðskipta verði tekin upp í meginmál laganna. Hugtakið stöður sem haldið er vegna veltuviðskipta er notað í skilgreiningu á veltubók.
     Um 67. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 14. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á umsýsluaðila verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 68. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 49. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á undirsamstæðugrunni verði tekin upp í meginmál laganna. Skilgreiningin styðst við skilgreiningu á stöðu samstæðu sem er tekin upp í 63. tölul.
     Um 69. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 13. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á upphafsaðila verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 72. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á vátryggingafélagi verði tekið upp í meginmál laganna, en þar er vísað til 1. tölul. 13. gr. tilskipunar 2009/138/EB, þar sem vátryggingafélag er skilgreint sem félag sem fengið hefur opinbert starfsleyfi í samræmi við 14. gr. tilskipunarinnar og rekur frumtryggingar á sviði líftrygginga og skaðatrygginga. Efni þeirrar skilgreiningar var tekið upp í 17. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, þar sem frumtryggingafélag er skilgreint sem félag sem hefur með höndum þá starfsemi að vátryggja áhættu einstaklinga og lögaðila, aðra en endurtryggingaráhættu, og hefur hlotið til þess starfsleyfi skv. VI. kafla laganna. Í frumvarpinu er ekki vísað til skilgreiningar laga um vátryggingastarfsemi á vátryggingafélagi, sem fram kemur í 42. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna, því að hún nær bæði til frumtrygginga- og endurtryggingafélaga. Hún er því víðtækari en skilgreining reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 og tilskipunar 2009/138/EB á vátryggingafélagi, sem nær aðeins til frumtrygginga. Frumtryggingastarfsemi er sú starfsemi að vátryggja vátryggingaráhættu annarra en vátryggingafélaga, sbr. 19. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
     Um 73. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 23. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á vátryggingafélagi þriðja lands verði tekið upp í meginmál laganna. Í reglugerðinni er hugtakið skilgreint sem vátryggingafélag þriðja lands eins og það er skilgreint í 3. tölul. 13. gr. tilskipunar 2009/138/EB. Þar er hugtakið skilgreint sem félag sem þyrfti starfsleyfi sem vátryggingafélag í samræmi við 14. gr. tilskipunarinnar ef aðalskrifstofa þess væri í bandalaginu. Hugtakið vátryggingafélag utan Evrópska efnahagssvæðisins er notað í skilgreiningu á aðila á fjármálamarkaði.
     Um 74. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 86. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, með breytingum samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/876, á veltubók verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 76. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 62. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á verðbréfaðri stöðu verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 77. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 61. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á verðbréfun verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 78. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 77. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á viðeigandi reikningsskilaumgjörð verði tekið upp í meginmál laganna. Hugtakið er notað í skilgreiningu frumvarpsins á hagnaði.
     Um 79. tölul. a-liðar. Lagt er til að hugtakið viðskiptabanki verði skilgreint. Viðskiptabankar eru ein þriggja tegunda lánastofnana, en hinar tvær tegundirnar eru sparisjóðir og lánafyrirtæki. Viðskiptabönkum svipar til sparisjóða. Um sparisjóði gilda þó sérreglur skv. VIII. kafla laga um fjármálafyrirtæki sem ekki gilda um viðskiptabanka, þar á meðal um samfélagslegt hlutverk og ráðstöfun hagnaðar, rekstrarform og viðskipti með hluti.
     Um 80. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 72. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á viðurkenndri kauphöll verði tekið upp í meginmál laganna. Þar er vísað til markaðar í þriðja landi sem telst jafngildur skipulegum markaði í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í a-lið 4. mgr. 25. gr. tilskipunar 2014/65/ESB. Þar er kveðið á um að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins geti ákveðið að markaður í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins teljist jafngildur skipulegum markaði að tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Hugtakið viðurkennd kauphöll er notað í skilgreiningu á endurhverfum verðbréfakaupum.
     Um 81. tölul. a-liðar. Lagt er til að skilgreining 93. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á vogun verði tekin upp í meginmál laganna.
     Um 82. tölul. a-liðar. Lagt er til að efni skilgreiningar 37. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á yfirráðum verði tekið upp í meginmál laganna. Þar eru yfirráð skilgreind sem tengsl milli móðurfélags og dótturfélags, eins og þau eru skilgreind í 1. gr. tilskipunar 83/349/EBE eða reikningsskilastöðlum sem fjármálafyrirtæki fellur undir samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla eða sambærilegt samband milli einstaklings eða lögaðila og fyrirtækis. Tilskipun 83/349/EBE var felld brott með tilskipun 2013/34/ESB. Tilskipun 2013/34/ESB er innleidd hér á landi með lögum um ársreikninga, nr. 3/2006. Í 4. og 29. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga eru dóttur- og móðurfélög skilgreind þannig að dótturfélög séu félög sem móðurfélög hafi yfirráð yfir. Í 48. tölul. sömu greinar eru yfirráð skilgreind þannig að þau hafi sömu merkingu og samkvæmt viðeigandi alþjóðlegum reikningsskilastaðli sem settur er á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt.
     Um b-lið. Sem fyrr greinir er lagt til að efni orðskýringa reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á hugtökum sem notuð eru í meginmáli laganna verði tekið upp í 1. gr. b laganna. Af því leiðir að vísun 2. mgr. greinarinnar til orðskýringa reglugerðarinnar verður ofaukið. Því er lagt til að hún falli brott.

Um 6. og 7. gr.

    Lagt er til að framsetningu 7. mgr. 14. gr. og 14. mgr. 14. gr. a laganna verði breytt þannig að ekki verði vísað til tilskipunar 2013/36/ESB. Um nánari skýringar vísast til skýringa við 33. gr. frumvarpsins um fyrirhugaðar breytingar á 117. gr. a laganna.

Um 8. og 9. gr.

    Vátryggingafélag í skilningi laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, er frumtryggingafélag eða endurtryggingafélag. Samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins á vátryggingafélagi, sem byggist á skilgreiningu reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, nær hugtakið aftur á móti aðeins til frumtryggingafélaga. Með tilliti til þess er lagt til að vísunum til endurtryggingafélaga verði bætt við 3. mgr. 21. gr., 23. gr., 2. mgr. 42. gr. a og 2. mgr. 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, sem vísa nú til vátryggingafélaga, þannig að ákvæðin nái líka til endurtryggingafélaga. Ekki er lagt til að vísunum til endurtryggingafélaga verði bætt við 2. mgr. 2. gr., 109. gr. f, 7. tölul. 1. mgr. 109. gr. aa eða 109. gr. bb laganna þótt þar sé vísað til vátryggingafélaga því að þau ákvæði byggjast á ákvæðum í tilskipun 2013/36/ESB sem vísa ekki til endurtryggingafélaga.

Um 10. gr.

    Í 4. mgr. 29. gr. a laga um fjármálafyrirtæki er Seðlabanka Íslands falið að setja reglur um með hvaða hætti lán sem eru tryggð með hlutabréfum eða stofnfjárbréfum annars fjármálafyrirtækis komi til útreiknings á áhættu- og eiginfjárgrunni og í mati á eiginfjárþörf og með hvaða hætti meta skuli lán sem eru tryggð með veði í eignasöfnum, svo sem vörslureikningum og verðbréfasjóðum, sem innihalda hlutabréf eða stofnfjárbréf. Slíkar reglur hafa ekki verið settar. Þær eru nú ónauðsynlegar því að reglugerð (ESB) nr. 575/2013, sem hefur lagagildi skv. 1. gr. c laganna, hefur að geyma fyrirmæli um sömu atriði. Því er lagt til að málsgreinin verði felld brott.

Um 11. gr.

    Í 2. mgr. 31. gr. a laga um fjármálafyrirtæki kemur fram að Fjármálaeftirlitið skuli leitast við að komast að sameiginlegri niðurstöðu með lögbæru yfirvaldi erlends fjármálafyrirtækis sem starfrækir útibú hér á landi um hvort útibúið sé mikilvægt. Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemd við orðin „leitast við“ þar sem í 3. undirgr. 1. mgr. 51. gr. tilskipunar 2013/36/ESB, sem ákvæðið byggist á, eru notuð orðin „gera allt sem í þeirra valdi stendur“. Til að bregðast við athugasemdinni er lagt til að orðunum „leitast við“ verði skipt út fyrir „gera allt sem í valdi þess stendur til“.

Um 12. og 13. gr.

    Vátryggingafélag í skilningi laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, er frumtryggingafélag eða endurtryggingafélag. Samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins á vátryggingafélagi, sem byggist á skilgreiningu reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, nær hugtakið aftur á móti aðeins til frumtryggingafélaga. Með tilliti til þess er lagt til að vísunum til endurtryggingafélaga verði bætt við 3. mgr. 21. gr., 23. gr., 2. mgr. 42. gr. a og 2. mgr. 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, sem vísa nú til vátryggingafélaga, þannig að ákvæðin nái líka til endurtryggingafélaga. Ekki er lagt til að vísunum til endurtryggingafélaga verði bætt við 2. mgr. 2. gr., 109. gr. f, 7. tölul. 1. mgr. 109. gr. aa eða 109. gr. bb laganna þótt þar sé vísað til vátryggingafélaga því að þau ákvæði byggjast á ákvæðum í tilskipun 2013/36/ESB sem vísa ekki til endurtryggingafélaga.
    Í 2. málsl. 2. mgr. 42. gr. a laga um fjármálafyrirtæki segir að Fjármálaeftirlitið skuli að eigin frumkvæði veita viðkomandi yfirvöldum upplýsingar sem eru nauðsynlegar fyrir tiltekið mat þeirra og verða án ástæðulausrar tafar við óskum um frekari upplýsingar sem skipta máli fyrir matið. Með tilliti til athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA er lagt til að fyrirmæli um að Fjármálaeftirlitið skuli veita upplýsingarnar án ástæðulausrar tafar verði færð í sérmálslið til að skýra að þau eigi ekki aðeins við um upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið veitir öðrum yfirvöldum að þeirra ósk heldur einnig upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið veitir að eigin frumkvæði.
    Með tilliti til athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA er einnig lagt til að þau fyrirmæli sem nú eru í 2. málsl. 2. mgr. 43. gr. laganna, um að Fjármálaeftirlitið skuli greina aðila sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í lánastofnun frá sjónarmiðum og fyrirvörum sem lögbært yfirvald viðkomandi hefur látið í ljós við samráð, verði færð aftast í 2. mgr. 42 gr. a. Með því móti eiga fyrirmælin ekki aðeins við þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um að hann teljist ekki hæfur til að fara með virkan eignarhlut heldur einnig þegar það tilkynnir aðila um að hann teljist hæfur til þess.

Um 14. gr.

    Lagt er til að í stað orðanna „skilaeining“ og „samstæðu innan skilameðferðar“ í 2. tölul. 2. mgr. 49. gr. b laganna komi „skilaaðili“ og „skilasamstæðu“ til að gæta samræmis við orðanotkun í skilgreiningum á hugtökunum í frumvarpinu.

Um 15. gr.

    Í 2. mgr. 49. gr. e laga um fjármálafyrirtæki kemur fram að tilteknum ágreiningi eftirlitsstjórnvalda skuli vísað til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar, Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á. Í ákvæðinu er vísað til reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010 frá 24. nóvember 2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), um breytingu á ákvörðun nr. 716/2009/EB og niðurfellingu ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2009/78/EB, sem varðar Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina, en þar vantar vísun til reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 frá 24. nóvember 2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin), um breytingu á ákvörðun nr. 716/2009/EB og um niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/79/EB, sem varðar Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina. Lagt er til að henni verði bætt við.

Um 16. gr.

    Lagt er til í stað orðsins „skilavalds“ í b-lið 49. gr. i laga um fjármálafyrirtæki komi „skilastjórnvalds“ til að gæta samræmis við orðanotkun í skilgreiningu á hugtakinu skilastjórnvald í frumvarpinu. Ráðgert er að áfram verði notað orðið skilavald í lögunum þar sem átt er við skilavald Seðlabanka Íslands.

Um 17. gr.

    Vátryggingafélag í skilningi laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, er frumtryggingafélag eða endurtryggingafélag. Samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins á vátryggingafélagi, sem byggist á skilgreiningu reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, nær hugtakið aftur á móti aðeins til frumtryggingafélaga. Með tilliti til þess er lagt til að vísunum til endurtryggingafélaga verði bætt við 3. mgr. 21. gr., 23. gr., 2. mgr. 42. gr. a og 2. mgr. 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, sem vísa nú til vátryggingafélaga, þannig að ákvæðin nái líka til endurtryggingafélaga. Ekki er lagt til að vísunum til endurtryggingafélaga verði bætt við 2. mgr. 2. gr., 109. gr. f, 7. tölul. 1. mgr. 109. gr. aa eða 109. gr. bb laganna þótt þar sé vísað til vátryggingafélaga því að þau byggjast á ákvæðum í tilskipun 2013/36/ESB sem vísa ekki til endurtryggingafélaga.

Um 18. gr.

    Í 1. mgr. 52. gr. e laga um fjármálafyrirtæki er ákvæði um skyldu stjórnar og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis til að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um brot gegn varfærniskröfum og um að fyrirtæki sé á fallanda fæti. Í 2. og 3. mgr. greinarinnar er Fjármálaeftirlitinu heimilað að veita fjármálafyrirtæki frest til að koma starfsemi í lögmætt horf og til að krefjast greinargerðar og annarra gagna frá fyrirtækinu um ráðstafanir til úrbóta. Í 4. mgr. greinarinnar er áréttað að ákvæðin takmarki ekki aðrar heimildir Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögunum.
    Í 107. gr. a laganna eru ítarleg ákvæði um hvað Fjármálaeftirlitið skuli gera ef fjármálafyrirtæki uppfyllir ekki ákvæði laga eða stjórnvaldsfyrirmæla eða líklegt er að það muni ekki gera það á næstu 12 mánuðum sem byggjast á tilskipun 2013/36/ESB. Þar er m.a. kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli krefjast þess að fjármálafyrirtæki grípi tímanlega til nauðsynlegra ráðstafana til úrbóta og um að Fjármálaeftirlitið geti krafist þess að fjármálafyrirtæki leggi fram áætlun þar að lútandi. Með tilliti til þess er 2. og 3. mgr. 52. gr. e laganna ofaukið og því er lagt til að þær falli brott. Af brottfalli þeirra leiðir að árétting 4. mgr. greinarinnar verður óþörf og því er einnig lagt til að hún falli brott. Með brottfalli ákvæðanna í 52. gr. e laganna verður skýrara að Fjármálaeftirlitið skuli fara eftir ákvæðum 107. gr. a ef fjármálafyrirtæki uppfyllir ekki ákvæði laga eða stjórnvaldsfyrirmæla eða líklegt er að það muni ekki gera það á næstu 12 mánuðum.

Um 19. gr.

    Í 1. mgr. 57. gr. laga um fjármálafyrirtæki segir að fjármálafyrirtæki skuli setja reglur um viðskipti sín við stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn. Samningar um lán og sambærileg viðskipti við stjórnarmann eða framkvæmdastjóra sé háður samþykki stjórnar og skuli tilkynntir Fjármálaeftirlitinu. Þá segir að ákvæðið gildi einnig um maka, börn og foreldra stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis og fyrirtæki sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri eða maki, barn eða foreldri hans á virkan eignarhlut í, gegnir í stöðu stjórnarmanns, framkvæmdastjóra eða stjórnanda sem svarar beint til framkvæmdastjóra eða getur af öðrum sökum haft veruleg áhrif á.
    Af hálfu fjármálafyrirtækja hefur komið fram að af ákvæðinu leiði að viðskipti við allstóran hóp þurfi að fara fyrir stjórn og vera tilkynnt Fjármálaeftirlitinu, jafnvel þótt um sé að ræða hefðbundin viðskipti á sömu kjörum og standa almennum viðskiptavinum til boða. Það feli í sér íþyngjandi kröfu sem gangi mun lengra en tilskipun 2013/36/ESB áskilji, en í 4. og 5. undirgr. 1. mgr. 88. gr. tilskipunarinnar er aðeins áskilið að fjármálafyrirtæki varðveiti gögn um lán til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og tengdra aðila og geri þau aðgengileg eftirlitsyfirvaldi óski það eftir því.
    Í 3. mgr. 55. gr. og 2. mgr. 57. gr. laganna eru ákvæði um viðskipti fjármálafyrirtækja við stjórnarmenn og starfsmenn, þar á meðal framkvæmdastjóra, og aðila sem þeim tengjast. Viðskiptaerindi stjórnarmanna þurfa að meginreglu til að fara fyrir stjórn eða stjórnarformann til samþykktar eða synjunar skv. 3. mgr. 55. gr. Stjórn fjármálafyrirtækis er þó heimilt að setja almennar reglur um afgreiðslu slíkra mála þar sem fyrir fram er ákveðið hvaða viðskiptaerindi þurfi, og þurfi ekki, sérstaka umfjöllun stjórnar áður en til afgreiðslu þeirra kemur. Í 2. mgr. 57. gr. segir að um viðskipti við starfsmenn og aðila í nánum tengslum við þá skuli fara samkvæmt reglum sem stjórn setur og birtir opinberlega. Skuli þau lúta sömu reglum og viðskipti við almenna viðskiptamenn í sambærilegum viðskiptum.
    Með tilliti til þessara ákvæða er ekki talin þörf á jafn víðtæku ákvæði og nú er í 1. mgr. 57. gr. laganna. Því er lagt til að ákvæðinu verði breytt þannig að það endurspegli aðeins efni 4. og 5. undirgr. 1. mgr. 88. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.

Um 20. gr.

    57. gr. b laga um fjármálafyrirtæki takmarkar kaupaukagreiðslur fjármálafyrirtækja. Skv. 3. mgr. greinarinnar má allt að fjórðungur kaupauka bera vexti að því tilskildu að hann sé greiddur með gerningum sem er haldið eftir í a.m.k. fimm ár. Málsgreinin byggist á iii-lið g-liðar 1. mgr. 94. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Þar er þó rætt um afvöxtun en ekki ávöxtun. Til að gæta betur samræmis við tilskipunarákvæðið er lagt til að 3. mgr. 57. gr. b laganna verði breytt þannig að þar segi að afvaxta megi allt að fjórðung kaupauka fremur en að allt að fjórðungur kaupauka megi bera vexti. Því til samræmis er lagt til að í lokamálsgrein greinarinnar verði Seðlabankanum heimilað að setja reglur um afvöxtun skv. 3. mgr. frekar en vexti skv. 3. mgr. Nánar er fjallað um afvöxtunina í viðmiðunarreglum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar EBA/GL/2014/01 frá 27. mars 2014.

Um 21. gr.

    Í 450. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, sem hefur lagagildi skv. 1. gr. c laga um fjármálafyrirtæki, er fjármálafyrirtækjum falið að birta upplýsingar um launakjarastefnu og -venjur vegna þeirra hópa starfsfólks sem hefur við störf sín marktæk áhrif á áhættusnið fyrirtækjanna. Útfært er í 3. mgr. 92. gr. tilskipunar 2013/36/ESB og í framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/923 frá 5. mars 2021 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla til að setja fram viðmið til að skilgreina stjórnendaábyrgð, eftirlitssvið, mikilvægar rekstrareiningar og veruleg áhrif á áhættusnið mikilvægrar rekstrareiningar, og sett eru fram viðmið til að auðkenna starfsfólk eða hópa starfsfólks sem í starfi sínu hefur áhrif á áhættusnið stofnunarinnar sem er sambærilegt við veruleg áhrif starfsfólks eða hópa starfsfólks sem um getur í 3. mgr. 92. gr. þeirrar tilskipunar, sem var samþykkt á grundvelli tilskipunarinnar, hvaða hópar starfsfólks teljist hafa við störf sín marktæk áhrif á áhættusnið fjármálafyrirtækis. Meðal þeirra eru æðstu stjórnendur og starfsmenn sem stýra eftirlitseiningum eða mikilvægum rekstrareiningum.
    Lagt er til að viðmið 3. mgr. 92. gr. tilskipunar 2013/36/ESB verði tekin upp í nýja 3. mgr. í 57. gr. f laga um fjármálafyrirtæki sem varðar upplýsingar um starfskjör. Þá er lagt til að í nýrri 4. mgr. verði Seðlabankanum falið að setja nánari reglur um hvaða hópar starfsfólks teljast við störf sín hafa marktæk áhrif á áhættusnið fjármálafyrirtækis. Það gerir honum kleift að innleiða framselda reglugerð (ESB) 2021/923.

Um 22. gr.

    Í 2. málsl. 5. mgr. 77. gr. a laga um fjármálafyrirtæki kemur fram að tiltekin félög sem hafi tiltekin önnur félög að dótturfélagi eða eigi hlutdeild í slíkum félögum skuli fara eftir greininni á undirsamstæðugrunni. Í málsliðnum var 4. mgr. 108. gr. tilskipunar 2013/36/ESB innleidd. Þar er rætt um hlutdeild í öðru félagi. Hlutdeild er skilgreind í 32. tölul. 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Efni skilgreiningarinnar endurspeglast í skilgreiningu 1. mgr. 1. gr. b laganna á hlutdeildarfélagi. Með tilliti til þess er lagt til að í 2. málsl. 5. mgr. 77. gr. a laganna verði notað hugtakið hlutdeildarfélag í stað hlutdeildar.

Um 23. gr.

    Lagt er til í stað orðsins „útgefandi“ í 1. og 2. mgr. 78. gr. d laga um fjármálafyrirtæki komi „upphafsaðili“ til að gæta samræmis við orðanotkun í skilgreiningu á hugtakinu í frumvarpinu.

Um 24. gr.

    Lögð er til breyting á vísun til 1. mgr. 117. gr. b til samræmis við fyrirhugaðar breytingar á þeirri málsgrein í 34. gr. frumvarpsins.

Um 25. gr.

    Lagt er til að óhóflegri vogun og áhættu vegna hennar í 78. gr. i, 6. mgr. 81. gr. og 7. mgr. 107. gr. a laganna verði breytt í hættu á of mikilli vogun til að gæta samræmis við orðanotkun í skilgreiningu á hugtakinu í frumvarpinu.

Um 26. gr.

     Um a-lið. Lögð er til breyting á vísun til 1. mgr. 117. gr. b til samræmis við fyrirhugaðar breytingar á þeirri málsgrein í 34. gr. frumvarpsins.
     Um b-lið. Lagt er til að óhóflegri vogun og áhættu vegna hennar í 78. gr. i, 6. mgr. 81. gr. og 7. mgr. 107. gr. a laganna verði breytt í hættu á of mikilli vogun til að gæta samræmis við orðanotkun í skilgreiningu á hugtakinu í frumvarpinu.

Um 27. gr.

    Í 1. tölul. 2. mgr. og 5. mgr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki er vísað til fresta skv. 2. mgr. 52. gr. e laganna sem lagt er til að falli brott í frumvarpinu. Til að taka mið af því er lagt til að í stað vísana til fresta skv. 2. mgr. 52. gr. e verði mælt fyrir um frest fjármálafyrirtækis til að auka eigið fé umfram það lágmark sem mælt er fyrir um í reglugerð (ESB) nr. 575/2013.

Um 28. gr.

    Fjármálaeftirlitið þarf að búa yfir upplýsingum um náin tengsl lánastofnana við aðra lögaðila eða einstaklinga, m.a. vegna þess að Fjármálaeftirlitið getur skv. 9. gr. laga um fjármálafyrirtæki afturkallað starfsleyfi lánastofnunar ef náin tengsl hindra eftirlit þess. Í 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, er Fjármálaeftirlitinu falið að kalla eftir þeim upplýsingum sem það þarf frá eftirlitsskyldum aðilum í þágu eftirlits. Af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA hefur komið fram að æskilegt gæti þó verið að lög kvæðu afdráttarlaust á um skyldu lánastofnana til að upplýsa Fjármálaeftirlitið að eigin frumkvæði um breytingar á nánum tengslum sínum. Lagt er til að málsgrein þess efnis verði bætt við 107. gr. laganna sem varðar eftirlitsskylda starfsemi og heimildir til að afla upplýsinga.

Um 29. gr.

    Lagt er til að óhóflegri vogun og áhættu vegna hennar í 78. gr. i, 6. mgr. 81. gr. og 7. mgr. 107. gr. a laganna verði breytt í hættu á of mikilli vogun til að gæta samræmis við orðanotkun í skilgreiningu á hugtakinu í frumvarpinu.

Um 30. gr.

    Lagt er til að „félagi í hliðarstarfsemi“ í 109. gr. y laganna verði breytt í „félagi í viðbótarstarfsemi“ til að gæta samræmis við skilgreiningu á hugtakinu í frumvarpinu. Í tilskipun 2013/36/ESB er notað orðið hliðarstarfsemi en í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 við orðið viðbótarstarfsemi. Þar sem skilgreiningin í frumvarpinu byggist á reglugerðinni þykir rétt að nota sama orð og er notað þar.

Um 31. og 32. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 39. tölul. 1. mgr. 110. gr. og 20. tölul. 1. mgr. 112. gr. b laganna til að taka mið af fyrirhugaðri breytingu á 1. mgr. 57. gr. laganna í 19. gr. frumvarpsins.

Um 33. gr.

    Í 1. mgr. 117. gr. a laga um fjármálafyrirtæki er ráðherra falið að innleiða undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í 145. og 146. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Lagt er til að framsetningu ákvæðisins verði breytt þannig að ekki verði vísað til tilskipunarinnar. Heppilegra þykir að takmarka vísanir til tilskipana í lögum þar sem þær verða ekki sem slíkar hluti landsréttar heldur þau lög eða stjórnvaldsfyrirmæli sem innleiða þær. Eftir sem áður er málsgreininni ætlað að gera ráðherra kleift að innleiða undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í 145. og 146. gr. tilskipunarinnar.
    Um innleiðingu undirgerða sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 fer skv. 2. mgr. 117. gr. a og 2. og 3. mgr. 117. gr. b laganna.

Um 34. gr.

    Í 1. mgr. 117. gr. b laga um fjármálafyrirtæki er Seðlabanka Íslands falið að innleiða undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í tilgreindum ákvæðum tilskipunar 2013/36/ESB. Lagt er til að framsetningu ákvæðisins verði breytt þannig að ekki verði vísað til tilskipunarinnar. Heppilegra þykir að takmarka vísanir til tilskipana í lögum þar sem þær verða ekki sem slíkar hluti landsréttar heldur þau lög eða stjórnvaldsfyrirmæli sem innleiða þær.
    Ákvæði 1. tölul. málsgreinarinnar er ætlað að gera Seðlabankanum kleift að innleiða reglugerðir um tæknilega eftirlits- og framkvæmdarstaðla sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í 2. og 3. mgr. 8. gr. tilskipunar 2013/36/ESB; 2. tölul.: reglugerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir með stoð í 5. og 6. mgr. 35. gr., 5. og 6. mgr. 36. gr. og 4. og 5. mgr. 39. gr. tilskipunarinnar; 3. tölul.: reglugerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir með stoð í 4. og 5. mgr. 51. gr. og 4. og 5. mgr. 116. gr. tilskipunarinnar; 4. tölul.: reglugerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir með stoð í 9. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar; 5. tölul.: reglugerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir með stoð í 2. mgr. 94. gr. tilskipunarinnar; 6. tölul.: reglugerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir með stoð í 5. mgr. 84. gr. og 5. mgr. a 98. gr. tilskipunarinnar; 7. tölul.: reglugerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir með stoð í 7. mgr. 140. gr. tilskipunarinnar; 8. tölul.: reglugerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir með stoð í 18. mgr. 131. gr. tilskipunarinnar; 9. tölul.: reglugerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir með stoð í 3. mgr. 143. gr. tilskipunarinnar; 10. tölul.: reglugerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir með stoð í 4. mgr. 120. gr. tilskipunarinnar; 11. tölul.: reglugerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir með stoð í 5. mgr. 113. gr. tilskipunarinnar; 12. tölul.: reglugerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir með stoð í 6. og 7. mgr. 50. gr. tilskipunarinnar; og 13. tölul.: reglugerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir með stoð í 4. mgr. 77. gr. og 7. og 8. mgr. 78. gr. tilskipunarinnar.
    Um innleiðingu reglugerða sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 fer skv. 2. mgr. 117. gr. a og 2. og 3. mgr. 117. gr. b laganna.

Um 35. gr.

    Í h-lið 2. mgr. 13. gr. laga um skortsölu og skuldatryggingar, nr. 55/2017, er Seðlabanka Íslands heimilað að setja reglur til að innleiða undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í 3. mgr. 16. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 236/2012 frá 14. mars 2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga um nánari framkvæmd vegna undanþágu ef meginviðskiptavettvangur er í þriðja landi. Ákvæðið á með réttu að vísa til 4. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar um nánari framkvæmd við að ákvarða hvort meginviðskiptavettvangur er í þriðja landi. Lagt er til að tilvísunin verði leiðrétt.

Um 36. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 1. mgr. 4. gr. laga um vátryggingasamstæður, nr. 60/2017, til að skerpa á ákvæðinu og tryggja betur samræmi við 1. mgr. 214. gr. tilskipunar 2009/138/EB. Í ákvæðinu er nú kveðið á um að Fjármálaeftirlitið fari ekki með eftirlit með þeim aðilum sem taldir eru upp í ákvæðinu þótt þeir falli undir samstæðueftirlit Fjármálaeftirlitsins. Lagt er til að kveðið verði á um að það að Fjármálaeftirlitið fari með samstæðueftirlit skv. 3. gr. laganna, sem hinir upptöldu aðilar falla undir, feli ekki sjálfkrafa í sér að það fari með eftirlit að öðru leyti með hverjum og einum þessara aðila. Mögulegt er að þeir heyri undir eftirlit annarra eftirlitsaðila þó svo að samstæðueftirlitið heyri undir Fjármálaeftirlitið. Þótt eftirlitið með hverjum og einum aðila heyri ekki undir Fjármálaeftirlitið þá fer það með eftirlit með því að ákvæði 43. gr. laganna séu uppfyllt þegar um er að ræða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi.

Um 37. gr.

     Um a-lið. Í 1. mgr. 32. gr. laga um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, nr. 61/2017, er vísað til breytinga samkvæmt tilskipun 2011/89/ESB og sagt að þær hafi ekki enn verið teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Tilskipunin hefur nú verið tekin upp í samninginn. Lagt er til að vísuninni til hennar verið breytt því til samræmis.
     Um b-lið. Í 3. mgr. 32. gr. laganna er Fjármálaeftirlitinu heimilað að setja reglur sem byggjast á tæknilegum eftirlits- og framkvæmdarstöðlum sameiginlegrar nefndar evrópsku eftirlitsstofnananna. Lagt er til að vísað verði til Seðlabanka Íslands frekar en Fjármálaeftirlitsins þar sem Fjármálaeftirlitið varð hluti Seðlabanka Íslands við gildistöku laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019. Þá er lagt til að ekki verði vísað til sameiginlegrar nefndar evrópsku eftirlitsstofnananna þar sem hluti tæknilegu staðlanna stafar ekki frá sameiginlegu nefnd stofnananna heldur frá stofnununum sjálfum. Breyttri málsgrein er ætlað að gera Seðlabankanum kleift að innleiða alla tæknilega eftirlits- og framkvæmdarstaðla sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í tilskipun 2002/87/EB, nánar tiltekið í 21. gr. a tilskipunarinnar.

Um 38. gr.

    Lagt er til að tveimur töluliðum verði bætt við 1. mgr. 15. gr. laga um um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018, til að gera ráðherra kleift að innleiða með reglugerð framkvæmdarreglugerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í 2. mgr. 2. gr. a og 2. mgr. 13. gr. reglugerðar (ESB) nr. 648/2012. Slíkar framkvæmdarreglugerðir snúa að því hvort laga- og eftirlitsrammi í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins teljist fullnægjandi.
    Jafnframt er lagt til að einum tölulið verði bætt við 2. mgr. sömu greinar til að gera Seðlabanka Íslands kleift að innleiða með reglum tæknilega eftirlitsstaðla sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í 5. mgr. 45. gr. reglugerðar (ESB) nr. 648/2012. Slíkir staðlar snúa að fjármunum sem miðlægir mótaðilar þurfa að viðhalda til að mæta vanskilum.

Um 39. gr.

     Um a-lið. Lagt er til að skilgreining á stofnframlagi í 33. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020, sem vísar til skilgreiningar laga um fjármálafyrirtæki, falli brott. Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki um stofnframlög lánastofnana eiga ekki fullum fetum við um sérhæfða sjóði og rekstraraðila þeirra. Í stað skilgreiningarinnar í 3. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða er lagt til að ákvæði um hvað megi telja til stofnframlags sérhæfðra sjóða og rekstraraðila þeirra verði bætt við 15. gr. laganna, sbr. 40. gr. frumvarpsins.
     Um b-lið. Lagt er til að í stað þess að vísa til laga um fjármálafyrirtæki í skilgreiningu á virkum eignarhlut í 37. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða verði tekið upp meginefni skilgreiningar ah-liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/61/ESB á hugtakinu. Þar er virkur eignarhlutur skilgreindur sem beinn eða óbeinn eignarhlutur í rekstraraðila sérhæfðs sjóðs sem nemur 10% eða meira af hlutafé eða atkvæðisrétti, í samræmi við 9. og 10. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB, að teknu tilliti til skilyrða um samlagningu eignarhlutarins sem mælt er fyrir um í 4. og 5. mgr. 12. gr., eða annað sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun rekstraraðila sérhæfðs sjóðs sem eignarhluturinn er í. Tilvitnuð ákvæði í tilskipun 2004/109/EB voru innleidd hér á landi með 12., 13., 27. og 28. gr. í III. kafla laga um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, nr. 20/2021. Skv. 3. mgr. 16. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða gilda ákvæði A-hluta VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki um virka eignarhluti í rekstraraðilum sérhæfðra sjóða, eftir því við getur átt. Í 2. málsl. 2. mgr. 40. gr. í A-hluta VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki kemur fram að við mat á því hvort hlutdeild feli í sér virkan eignarhlut skuli atkvæðisréttur ákvarðaður til samræmis við III. kafla laga um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, eftir því sem við getur átt. Vísun ah-liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/61/ESB til 9. og 10. gr. og 4. og 5. mgr. 12. gr. tilskipunar 2004/109/EB á því nú þegar við um hlutdeild í rekstraraðila sérhæfðra sjóða skv. 3. mgr. 16. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Af þeim sökum er hún ekki tekin upp í skilgreininguna í frumvarpinu heldur er látið nægja að taka aðalatriðin þar upp.

Um 40. gr.

     Um a-lið. Lagt er til að efni skilgreiningar s-liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/61/ESB á stofnfé verði tekið upp í nýja 3. mgr. í 15. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, en sú grein fjallar um stofnframlag og eiginfjárgrunn sérhæfðra sjóða og rekstraraðila þeirra. Í skilgreiningunni í tilskipuninni segir að með stofnfé sé átt við fjármagn eins og um getur í a- og b-lið 1. mgr. 57. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana. Tilskipun 2006/48/EB var felld brott með tilskipun 2013/36/ESB. Ákvæði sem svara til a- og b-liðar 1. mgr. 57. gr. tilskipunar 2006/48/EB eru nú í a–c- og e-lið 1. mgr. 26. gr. og b-, c-, i- og j-lið 1. mgr. 28. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Með nokkurri einföldun fellur þar undir hlutafé, yfirverðsreikningur hlutafjár, varasjóðir og óráðstafað eigið fé.
     Um b- og c-lið. Lagt er til að vísunum milli málsgreina í greininni verði breytt til að taka mið af nýrri 3. mgr.

Um 41. gr.

    Í 16. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða er hugtakið dótturfyrirtæki notað en annars staðar í lögunum er rætt um dótturfélag, þar á meðal í skilgreiningu á hugtakinu í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Til að gæta samræmis er lagt til að „dótturfyrirtæki“ í 16. gr. verði breytt í „dótturfélag“.

Um 42. gr.

    Í 5. mgr. 93. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða er vísað til hóps tengdra viðskiptamanna í skilningi laga um fjármálafyrirtæki. Hugtakið hópur tengdra viðskiptavina er ekki skilgreint í meginmáli laga um fjármálafyrirtæki heldur í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 sem hefur lagagildi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Til að auðvelda lesendum að finna skýringu á hugtakinu er lagt til að vísun til viðkomandi ákvæðis í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 verði bætt við 5. mgr. 93. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.

Um 43. gr.

    Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/879 frá 20. maí 2019 um breytingu á tilskipun 2014/59/ESB að því er varðar tapþol og endurfjármögnunargetu lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og tilskipun 98/26/EB var mörkum þess hvenær ekki væri hægt að vísa máli til Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt tilskipun 2014/59/ESB breytt úr 1% í 2%. Breytingunni á 5. mgr. 19. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, er ætlað að endurspegla þá breytingu.

Um 44. gr.

    Málsgreinin er innleiðing á 8. mgr. 44. gr. tilskipunar 2014/59/ESB þar sem mælt er fyrir um þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi svo að heimilt sé að leggja til fjárframlag úr skilasjóði.

Um 45. gr.

    Lögð er til breyting á vísun til 57. gr. laganna til samræmis við fyrirhugaða breytingu á þeirri grein í 44. gr. frumvarpsins.

Um 46. gr.

    Seðlabanka Íslands er skv. 3. mgr. 4. gr. laga um aðgerðir gegn markaðssvikum, nr. 60/2021, heimilt að setja reglur um hlutverk og stöðu regluvarðar og skráningu samskipta. Í 2. mgr. greinarinnar á að vera árétting á því að stjórnvöld og aðrir aðilar sem fá reglulega innherjaupplýsingar í starfsemi sinni skuli fylgja reglunum eftir því sem við getur átt. Fyrir mistök er þó vísað til reglna um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti stjórnenda. Lagt er til að tilvísunin verði leiðrétt.

Um 47. gr.

    Í 2. mgr. 19. gr. laga um aðgerðir gegn markaðssvikum, nr. 60/2021, er Seðlabanka Íslands heimilað að innleiða með reglum undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í tilgreindum ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014 frá 16. apríl 2014 um markaðssvik (reglugerð um markaðssvik) og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB og tilskipunum framkvæmdastjórnarinnar 2003/124/EB, 2003/125/EB og 2004/72/EB. Lagt er til að bætt verði við málsgreinina heimildum til að innleiða undirgerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir með stoð í 13. mgr. 13. gr. og 6. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar. Heimildunum var bætt við reglugerðina með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2115 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á tilskipun 2014/65/ESB og reglugerðum (ESB) nr. 596/2014 og (ESB) 2017/1129 að því er varðar að stuðla að notkun vaxtarmarkaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Breytingum á reglugerð (ESB) nr. 596/2014 með reglugerð (ESB) 2019/2115 var veitt lagagildi með lögum um breytingu á ýmsum lögum á fjármálamarkaði, nr. 50/2022, en fyrir fórst að breyta samhliða heimildum Seðlabankans til að innleiða undirgerðir.

Um 48. gr.

    Í 5. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 114/2021, er hugtakið dótturfyrirtæki notað en í 2. gr. laganna, og almennt í annarri löggjöf á fjármálamarkaði, er rætt um dótturfélag. Til að gæta samræmis er lagt til að „dótturfyrirtæki“ í 5. gr. laganna verði breytt í „dótturfélag“.

Um 49.–51. og 53. gr.

    Greinarnar leiðrétta vísanir í lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021, til laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, m.a. til að taka mið af breytingum sem urðu á síðarnefndu lögunum með breytingalögum nr. 38/2022.

Um 52. gr.

    Í 40. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga kemur fram að starfsmenn verðbréfafyrirtækis sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við fjárfestingarþjónustu og fjárfestingarstarfsemi eða veita fjárfestingarráðgjöf skuli hafa verðbréfaréttindi. Til þess að öðlast réttindin þarf að standast próf. Fjármálaeftirlitinu er þó heimilt að veita allt að sex mánaða frest fyrir nýja starfsmenn verðbréfafyrirtækis til að öðlast verðbréfaréttindi og þá sem þurfa vegna breytinga í starfi að hafa verðbréfaréttindi, t.d. vegna stöðuhækkunar, ef sérstakar ástæður mæla með því. Skv. 1. mgr. 41. gr. laganna skal verðbréfaréttindapróf að jafnaði haldið einu sinni á ári.
    Fjármálafyrirtæki hafa gagnrýnt að Fjármálaeftirlitið geti aðeins veitt sex mánaða frest til að öðlast verðbréfaréttindi þótt að lengri tími geti liðið milli prófa til að öðlast verðbréfaréttindi. Til að koma til móts við gagnrýnina er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilað að veita allt að árs frest til að öðlast verðbréfaréttindi.

Um 54. gr.

     Um a-lið. Lagt er lagt til að skilgreining á stofnframlagi í 23. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um verðbréfasjóði, nr. 116/2021, sem vísar til skilgreiningar laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, falli brott. Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki um stofnframlög lánastofnana eiga ekki fullum fetum við um rekstrarfélög verðbréfasjóða. Í stað skilgreiningarinnar í 3. gr. laga um verðbréfasjóði er lagt til að ákvæði um hvað megi telja til stofnframlags rekstrarfélaga verðbréfasjóða verði bætt við 12. gr. laganna. Um nánari skýringar vísast til skýringa við 55. gr. frumvarpsins.
     Um b-lið. Lagt er til að í stað þess að vísa til laga um fjármálafyrirtæki í skilgreiningu á virkum eignarhlut í 27. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um verðbréfasjóði verði tekið upp efni skilgreiningar j-liðar 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/65/EB á hugtakinu. Þar er hann skilgreindur sem bein eða óbein eignarhlutdeild í rekstrarfélagi sem nemur 10% eða meira af höfuðstól eða atkvæðisrétti eða gerir það kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun rekstrarfélagsins sem eignarhlutdeildin er í.

Um 55. gr.

    Lagt er til að efni skilgreiningar k-liðar 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/65/EB á stofnfé verði tekið upp í nýjan málslið 1. mgr. 12. gr. laga um verðbréfasjóði, nr. 116/2021, en sú grein fjallar um stofnframlag og eiginfjárgrunn rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Í skilgreiningunni í tilskipuninni segir að með stofnfé sé átt við fjármagn samkvæmt skilgreiningu í a- og b-lið 57. gr. tilskipunar 2006/48/EB. Tilskipun 2006/48/EB var felld brott með tilskipun 2013/36/ESB. Ákvæði sem svara til a- og b-liðar 1. mgr. 57. gr. tilskipunar 2006/48/EB eru nú í a–c- og e-lið 1. mgr. 26. gr. og b-, c-, i- og j-lið 1. mgr. 28. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Með nokkurri einföldun fellur þar undir hlutafé, yfirverðsreikningur hlutafjár, varasjóðir og óráðstafað eigið fé.

Um 56. gr.

    Í 2. mgr. 8. gr. laga um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, nr. 25/2023, er Seðlabanka Íslands falið að setja reglur til að innleiða undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í tilgreindum ákvæðum í reglugerð (ESB) 2019/2088. Í upptalningu málsgreinarinnar vantar vísun til ákvæða sem var bætt við reglugerð (ESB) 2019/2088 með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/852 frá 18. júní 2020 um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu og um breytingu á reglugerð (ESB) 2019/2088. Lagt er til að þeim verði bætt við málsgreinina.

Um 57. gr.

    Frumvarpið felur að mestu leyti í sér tæknilegar lagfæringar sem eru ekki taldar kalla á verulegan undirbúning. Því er lagt að lögin taki þegar gildi.


Fylgiskjal I.


Gildandi lög með breytingum samkvæmt frumvarpinu.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s1360-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Innleiðing orðskýringarákvæða 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2013/36/ESB, um aðgang að starfsemi lánastofnana og varfærniseftirlit með lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum, og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, í íslensk lög.


www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s1360-f_II.pdf